Enski boltinn

Valencia líkaði færsla þar sem kallað var eftir því að Mourinho verði rekinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho gæti nú gert læti úr þessu.
José Mourinho gæti nú gert læti úr þessu. vísir/getty
José Mourinho á ekki sjö dagana sæla á Old Trafford þessar vikurnar en liðið er án sigurs í fjórum leikjum í röð, ekki að spila skemmtilegan fótbolta og gerði síðast markalaust jafntefli við Valencia í Meistaradeildinni í gærkvöldi.Frammistaðan upp á síðkastið hefur verið svo slæm og framkoma Mourinho sömuleiðis á blaðamannafundum að Paul Scholes, goðsögn í lifanda lífi á Old Trafford, kallaði eftir höfði Mourinho í beinni útsendingu í gærkvöldi.Mourinho er lentur upp á kant við nokkra leikmenn eins og Paul Pogba sem hann tók í gegn fyrir framan heimsbyggðina á æfingasvæði félagsins í síðustu viku eftir tap gegn Derby í deildabikarnum en hann var þá ekki ánægður með færslu Pogba á Instagram.

Færslan sem Valencia líkaði við.mynd/instagram
Portúgalinn verður ekkert síður ósáttur með það sem Antonio Valencia, fyrirliði liðsins, gerði í gærkvöldi þegar að hann líkaði við færslu á Instagram þar sem kallað er eftir því að Mourinho verði rekinn.Fjallað hefur verið um í breskum miðlum að Mourinho og Valencia talast varla við og eitthvað virðist til í þeim sögusögnum miðað við það sem Ekvadorinn gerði í gærkvöldi.Stór aðdáendasíða Valencia á Instagram sem bar heitir antoniovalencia2525 birti þrjár myndir af fyrirliðanum í gærkvöldi eftir jafnteflið gegn Valencia og skrifaði:„Úrslitin koma mér ekki einu sinni á óvart. Ég hef alltaf hlakkað til leikja United en að horfa á þetta lið undir stjórn Mourinho er eins og að upplifa refsingu. Eitthvað verður að breytast. Það er kominn tími til að Mourinho fari.“Antonio Valencia skellti sjálfur í „like“ á færsluna sem á vafalítið ekki eftir að skemmta Mourinho en eftir að allir heimsins fjölmiðlar fóru að fjalla um málið var aðdáendasíðunni eytt. Ekki vildu menn skemma fyrir sínum manni.Uppfært:Antonio Valencia var ekki lengi að biðjast afsökunar en hann setti inn færslu á Twitter-síðu sína nú í morgunsárið þar sem að hann útskýrir hvað gerðist í gærkvöldi. Hann segist ekki hafa lesið textann heldur bara sjálfkrafa gert „like.“ Þá lýsir hann yfir fullum stuðningi við José Mourinho.„Í gær líkaði ég við færslu á Instagram án þess að lesa textann sem fylgdi myndinni. Þetta eru ekki mínar skoðanir og biðst ég afsökunar. Ég styð knattspyrnustjórann minn heilshugar og liðsfélaga mína. Við erum allir að reyna allt sem við getum til þess að ná betri úrslitum,“ segir Antonio Valencia.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.