Enski boltinn

Engir venjulegir unglingar sem Southgate kallaði inn í enska hópinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jadon Sancho er að spila frábærlega fyrir Dortmund.
Jadon Sancho er að spila frábærlega fyrir Dortmund. vísir/getty
Gareth Southgate heldur áfram að gefa ungum leikmönnum tækifæri í enska landsliðshópnum en þrír ungir strákar voru kallaðir inn í fyrsta sinn í dag. Southgate valdi þá Jason Sancho, James Maddison og Mason Mount í hópinn sem að mætir Króatíu og Spáni í næstu tveimur leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í næstu viku.

Enska liðið er að glíma við meiðsli en Southgate er án Dele Alli, Jesse Lingard og Ruben Loftus-Cheek og þá er Fabian Delph einnig frá vegna meiðsla. Það eru því tækifæri fyrir unga menn að sanna sig.

Southgate er þó ekki að velja neina pappakassa bara af því að þeir eru ungir. Þessir strákar eru heldur betur að sanna sig með félagsliðum sínum.

James Maddison er búinn að skora þrjú mörk fyrir Leicester.vísir/getty

Geggjaður í gulu

Jadon Sancho er líklega heitasti bitinn í dag en þessi 18 ára gamli strákur tók skrefið úr akademíu Manchester City til Dortmund fyrir ári síðan og er orðinn fastamaður hjá þýska liðinu í dag sem er á toppnum í þýsku 1 .deildinni.

Sancho er búinn að leggja upp fleiri mörk en nokkur annar í efstu fimm deildum Evrópu en hann lagði einmitt upp mark fyrir Dortmund í 3-0 sigri á Mónakó í Meistaradeildinni í gær. Þá var hann heimsmeistari U17 ára með Englandi fyrir ári síðan.

Mason Mount er í eigu Chelsea en er á láni hjá Derby eftir að vera á láni hjá Vitesse Arnhem í Hollandi á síðustu leiktíð. Hann er einn af fjölmörgum Chelsea-mönnum sem eru á láni frá félaginu.

Mason Mount var í liði Derby sem sló United út úr deildabikarnum.vísir/getty

Efstur Englendinga

Þessi 19 ára gamli miðjumaður fór hamförum með Vitesse í fyrra og byrjar vel með Derby í B-deildinni á Englandi en hann er búinn koma með beinum hætti að 17 mörkum í síðustu 18 leikjum fyrir Vitesse og Derby. Hann varð Evrópumeistari með Englandi U19 ára í fyrra.

James Maddison er elstur nýliðanna en hann er 21 árs og spilar með Leicester. Refirnir keyptu hann frá Norwich fyrir 20 milljónir punda í sumar en hann var í liði ársins í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð.

Maddison hefur farið virkilega vel af stað með Leicester og skorað þrjú mörk í fyrstu sjö leikjunum. Þá hefur hann skapað fimmtán færi fyrir liðsfélaga sína í fyrstu sjö umferðunum en enginn Englendingur hefur gert betur í byrjun leiktíðar.


Tengdar fréttir

Southgate með enska liðið á HM 2022

Gareth Southgate mun stýra enska landsliðinu fram yfir HM 2022 samkvæmt frétt Sky Sports. Southgate á að hafa komist að munnlegu samkomulagi um nýjan samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×