Enski boltinn

Southgate með enska liðið á HM 2022

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Southgate hefur nú verið allt annað en hrokafullur.
Gareth Southgate hefur nú verið allt annað en hrokafullur. vísir/getty
Gareth Southgate mun stýra enska landsliðinu fram yfir HM 2022 samkvæmt frétt Sky Sports. Southgate á að hafa komist að munnlegu samkomulagi um nýjan samning.

Southgate tók við enska liðinu í september 2016 sem bráðabirgðastjóri þegar Sam Allardyce var látinn fara. Hann var fastráðinn í nóvember sama ár.

Undir hans stjórn komst enska liðið í lokakeppni HM þar sem liðið fór fram úr væntingum flestra og náði í undanúrslit.

Southgate er ekki búinn að skrifa undir nýja samninginn, sem inniheldur ríflega launahækkun samkvæmt frétt Sky, en það er búist við því að gengið verði frá samningnum áður en landsliðið kemur saman á sunnudagskvöld.

England leikur tvo útileiki í Þjóðadeild UEFA í komandi landsleikjahléi gegn Króötum og Spánverjum. Southgate tilkynnir hóp sinn fyrir leikina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×