Fótbolti

Sverrir Ingi: Fólk hefur rétt á sínum skoðunum

Henry Birgir Gunnarsson í Saint-Brieuc skrifar
Sverrir Ingi fyrir æfingu íslenska liðsins í dag.
Sverrir Ingi fyrir æfingu íslenska liðsins í dag.
Sverrir Ingi Ingason og félagar í vörn íslenska landsliðsins hafa fengið sinn skerf af gagnrýni eftir fyrstu leikina í Þjóðadeildinni þar sem andstæðingar Íslands röðuðu inn mörkum.

„Sú gagnrýni á rétt á sér og við vitum það allir að við getum gert betur. Úrslitin voru ekki nógu góð og við áttum okkur á því og erum staðráðnir í að gera betur,“ segir Sverrir Ingi og bætir við.

„Auðvitað var þetta erfitt að fá svona úrslit miðað við frábæra tíma undanfarin ár. Við þurfum að taka þessu eins og menn.“

Sverrir Ingi er að spila með Ragnari Sigurðssyni í vörninni hjá landsliðinu sem og hjá Rostov. Sumum finnst þeir samt ekki ná nægilega vel saman.

„Auðvitað eru alltaf einhverjar skoðanir og fólk hefur alveg rétt á þeim. Við Raggi höfum verið að spila vel saman hjá Rostov og þekkjum hvorn annan vel. Það var ekki bara ég og Raggi sem vorum ekki nógu góðir í síðustu leikjum. Það voru allir ekki að gera nægilega vel og það þarf að lagast.“

Erik Hamrén landsliðsþjálfari hefur ýjað að því að spila með þriggja manna vörn. Sverrir og Ragnar spila í þriggja manna vörn hjá Rostov og eru því vanir slíku kerfi.

„Ég hef í gegnum minn feril spilað mikið í þriggja manna vörn. Það hefur sína kosti og galla og misjafnt eftir leikmannahópnum. Ef að það er eitthvað sem að þjálfararnir vilja skoða þá er gott að eiga það upp í erminni,“ segir Sverrir Ingi en hvernig ætlar liðið að stríða Frökkunum á fimmtudag?

„Eins og við gerðum í mörg ár á þann hátt sem kom okkur á EM og HM. Við þurfum að finna það strax.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×