Erlent

Conway segist þolandi kynferðisofbeldis en kemur Trump til varnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kellyanne Conway er einn nánasti ráðgjafi Bandaríkjaforseta, sem ítrekað hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn konum.
Kellyanne Conway er einn nánasti ráðgjafi Bandaríkjaforseta, sem ítrekað hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn konum. Getty/Alex Wong
Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, greindi frá því í dag að hún væri þolandi kynferðisofbeldis. Conway lýsti þessu yfir í viðtali á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN þar sem hún ræddi ásakanir um kynferðisbrot á hendur Brett Kavanaugh, dómaraefnis Trumps til Hæstaréttar.

„Ég finn hreinskilnislega mjög til með þolendum kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni og nauðgana,“ sagði Conway í þættinum State of the Union. Hún gerði að því búnu hlé á máli sínu og ræskti sig.

„Ég er þolandi kynferðisofbeldis. Ég ætlast ekki til þess að Kavanaugh eða Jake Trapper eða Jeff Flake eða nokkur annar sé gerður ábyrgur fyrir því. Maður verður að bera ábyrgð á eigin hegðun,“ bætti hún svo við.Stjórnandi þáttarins, Jake Tapper, sagði að honum þætti það miður að Conway hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Hann benti þó á að Conway starfaði fyrir mann, Trump, sem hefði ítrekað verið sakaður um kynferðisofbeldi.

Conway bað Tapper að bendla ekki ásakanir á hendur Trump við ofbeldið sem hún hafi verið beitt. „Ég starfa fyrir Trump vegna þess að hann er svo góður við konurnar sem vinna fyrir hann og hann er svo góður við konur þessa lands,“ bætti hún við.

Conway kom Christine Blasey Ford, fyrstu konunni af þremur sem sakaði Kavanaugh um kynferðisofbeldi, einnig til varnar og sagði að þó að hún tryði því ekki að Kavanaugh hefði ráðist á hana gæti vel verið að einhver annar hefði gert það.

Þrjár konur hafa sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi en tilnefning hans til Hæstaréttar var samþykkt í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á föstudag, að loknum vitnisburði bæði Kavanaugh og Ford. Þá var samþykkt að Bandaríska alríkislögreglan hæfi vikulanga rannsókn á ásökunum á hendur Kavanaugh. Kosið verður um tilefningu hans í öldungadeildinni næsta föstudag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.