Erlent

Alríkislögreglan hefur samband við Ramirez vegna Kavanaugh-rannsóknarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Deborah Ramirez er bekkjarsystir Kavanaugh úr Yale-háskóla.
Deborah Ramirez er bekkjarsystir Kavanaugh úr Yale-háskóla. Vísir/AP
Rannsókn Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á ásökunum gegn Brett Kavanaugh, hæstaréttardómaraefni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, um kynferðisofbeldi er hafin. Þegar hefur verið haft samband við Deboruh Ramirez en hún er ein þriggja kvenna sem sakað hefur Kavanaugh um kynferðisbrot.

Óvæntar vendingar urðu í dómsmálanefnd öldungadeild Bandaríkjaþings í gær að loknum vitnisburði Kavanaugh og Christine Blasey Ford, sem steig fram fyrst kvennanna þriggja. Tilnefning Kavanaugh til Hæstaréttar var samþykkt af nefndinni en þó var ákveðið að fara fram á rannsókn FBI á málinu. Rannsóknin má aðeins taka viku og verður „takmörkuð að umfangi“, að beiðni Bandaríkjaforseta.

Washington Post greinir frá því í dag að FBI hafi nú byrjað að hafa samband við málsaðila, þar á meðal Deboruh Ramirez. Hún var skólasystir Kavanaugh í Yale-háskóla og sakar hann um að hafa þrýst kynfærum sínum að andliti hennar í gleðskap skólaárið 1983-1984.

Brett Kavanaugh var mikið niðri fyrir við vitnaleiðslur í dómsmálanefnd í gær.Getty/Andrew Harnik - Pool
Í yfirlýsingu frá lögmanni Ramirez segir að hún muni svara spurningum FBI. Þá mun alríkislögreglan einnig falast eftir frekari upplýsingum frá Ford, sem bar vitni frammi fyrir dómsmálanefnd í gær. FBI mun hins vegar ekki óska eftir vitnisburði þriðju konunnar, Julie Swetnick, sem sakar Kavanaugh einnig um kynferðisbrot á níunda áratugnum.

Öldungadeildin mun greiða atkvæði um það næsta föstudag hvort Kavanaugh verði hæstaréttardómari eða ekki. Repúblikanar eru með 51 atkvæði gegn 49 atkvæðum Demókrata en Mike Pence varaforseti hefur úrslitaatkvæðið ef atkvæði falla jöfn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×