Erlent

Frestar opinberun gagna sem Fox-liðar sannfærðu forsetann um að opinbera

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur frestað opinberun skjala og gagna frá Rússarannsókninni svokölluðu. Það gerði hann eftir að bandamenn Bandaríkjanna lýstu yfir áhyggjum vegna opinberunarinnar. Gagnrýnendur Trump segja að hún gæti varpað ljósi á þær leiðir sem leyniþjónustur Bandaríkjanna og bandamenn Bandaríkjanna nota til að afla upplýsinga.

Innra eftirliti Dómsmálaráðuneytisins hefur verið gert að fara yfir gögnin sem til stendur að opinbera og hvort rétt sé að opinbera þau.

Trump sjálfur sagði frá þessu á Twitter í dag þar sem hann sagði einnig að hann teldi að töfin yrði einungis til skamms tíma. Hann sagði að starfsmenn ráðuneytisins hefðu tilkynnt honum að opinberunin gæti komið niður á Rússarannsókninni, sem meðal annars snýr að Trump sjálfum og hvort framboð hans hjálpaði Rússum við afskipti þeirra af forsetakosningunum 2016.

Hins vegar sagðist hann svipt hulunni af skjölunum sjálfur ef til þess kæmi og að það væri mikilvægt fyrir sig, og alla, að þetta gengi hratt fyrir sig.

Trump hefur viðurkennt að hann hafi ekki skoðað umrædd skjöl, né viti hann hvað þau innihaldi. Hins vegar sagði hann að fjöldi fólks, sem hann bæri virðingu fyrir, hefðu beðið hann um að opinbera skjölin. Sem dæmi nefndi hann „hinn frábæra Lou Dobbs, hinn frábæra Sean Hannity og hina æðisleg frábæru Jeanine Pirro“.



Öll eiga þau sameiginlegt að vera þáttastjórnendur á hjá Fox, uppáhalds sjónvarpsstöð forestans, og hans helstu verjendur. Trump horfir mikið á Fox og tíst hans eru oft í takti við þá þætti sem hann horfir á. Þá talast Trump og Hannity reglulega við í síma og fregnir hafa borist af því að Hannity ráðleggi forsetanum um mikilvæg málefni.

Til marks um samband Trump við Fox má benda á að síðan hann tók við embætti forseta hefur hann farið í margfalt fleiri viðtöl þar en hjá öllum hinum sjónvarpsstöðvunum samanlagt.


Tengdar fréttir

Ný víglína í gömlu stríði

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað að gögn sem tengjast Rússarannsókninni svokölluðu, rannsókn Robert Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum, verði gerð opinber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×