Erlent

Komu í veg fyrir „stóra hryðjuverkaárás“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að stöfum í Hollandi í sumar.
Lögregluþjónar að stöfum í Hollandi í sumar. EPA/ARIE KIEVIT
Lögreglan í Hollandi segir að sjö menn, sem hafi verið að skipuleggja „stóra hryðjuverkaárás“ hafi verið handteknir. Mennirnir, sem eru á aldrinum 21 til 34, eru sagðir hafa verið að reyna að útvega sér AK-47 árásarriffla, handsprengjur og önnur sprengiefni. Þrír mannanna höfðu áður verið handteknir fyrir að reyna að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök. Þar á meðal Íslamska ríkið.

Samkvæmt umfjöllun BBC er forsprakki hópsins frá Írak og var hann sakfelldur í fyrra fyrir að reyna að ganga til liðs við ISIS.



Lögreglan segir í yfirlýsingu að yfirvöld hafi komist á snoðir um ætlanir mannanna í apríl og þá hafi þeir verið að skoða mögulega árásarstaði. Sérstaklega „stóran viðburð í Hollandi þar sem fórnarlömbin yrðu mörg“.



Mennirnir sjö voru handteknir í borgunum Arnhem og Weert í dag af lögregluþjónum í sérstakri hryðjuverkadeild. Þegar þeir voru handteknir höfðu þeir komið höndum yfir minnst fimm skammbyssur. Talið er að þeir hafi ætlað sér að gera tvær samræmdar árásir með skotvopnum, sprengjum og bílasprengju.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×