Erlent

Deilt um tilverurétt útvarpsstöðvar í sænsku kosningabaráttunni

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson hefur verið formaður Svíþjóðardemókrata frá árinu 2005.
Jimmie Åkesson hefur verið formaður Svíþjóðardemókrata frá árinu 2005. Vísir/epa

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur sætt nokkurri gagnrýni eftir að hann lét það hafa eftir sér í viðtali á sænsku útvarpsstöðinni P3, sem er ríkisrekin, að hann hefði löngu verið búinn að leggja stöðina niður ef hann hefði verið við stjórnvölinn.

Åkesson mætti fyrr í vikunni í þátt á stöðinni þar sem leiðtogi einhvers stjórnmálaflokks er tekinn tali. Þættirnir hefjast hins vegar á innslagi þar sem þáttastjórnendur hæðast að viðmælandanum.

Í innslaginu var Åkesson meðal annars kallaður landráðamaður og spilafíkill, en árið 2014 greindu sænskir fjölmiðlar frá því að Åkesson hafi veðjað um hálfa milljón sænskra króna í fjárhættuspilum á netinu það árið.

Eftir innslagið kallaði Åkesson útvarpsstöðina „skítastöð“. „Hefði ég verið yfirmaður hefði ég látið loka stöðinni fyrir löngu. Mér finnst þetta hreinræktuð vinstrisinnuð drulla,“ sagði Åkesson í viðtalinu.

Minnir á fjórða áratuginn
Fjölmargir sænskir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt Åkesson vegna ummælanna, meðal annars dómsmálaráðherrann Morgan Johansson. „[Svíþjóðardemókratar] vilja sem sagt leggja niður útvarpsstöð af pólitískum ástæðum. Það minnir mjög á fjórða áratug síðustu aldar,“ sagði Johansson á Twitter.

Åkesson sagði síðar að hann vilji alls ekki leggja niður útvarpsstöðina. Hann sé þó áfram gagnrýninn á háðsádeilu stöðvarinnar. „Mér fannst brotið á mér. Þetta var virkilega lélegt. Ríkisfjölmiðlar eiga alls ekki að stunda þetta,“ sagði Åkesson síðar í samtali við sænska fjölmiðla.

Kosningar fara fram í Svíþjóð á sunnudaginn 9. september næstkomandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.