Erlent

Svíþjóðardemókratar á mikilli siglingu og erfitt gæti reynst að mynda nýja stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Ulf Kristersson, leiðtogi Moderaterna, Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins og Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna og forsætisráðherra Svíþjóðar.
Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Ulf Kristersson, leiðtogi Moderaterna, Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins og Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna og forsætisráðherra Svíþjóðar.
Svíar munu ganga að kjörborðinu þann 9. september næstkomandi og stefnir í einhverjar mest spennandi kosningar í landinu í langan tíma. Svíþjóðardemókratar hafa ítrekað mælst með rúmlega fimmtungs fylgi í könnunum og bendir allt til þess að flokkurinn muni halda áfram að hrista upp í pólitíska landslaginu í Svíþjóð.Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö, segir að flókin staða gæti komið upp að loknum kosningum og að erfiðlega gæti reynst að mynda nýja ríkisstjórn. Hægri- og vinstriblokkin hafi í könnunum verið að mælast álíka stórar og svo Svíþjóðardemókratarnir með yfir um tuttugu prósent fylgi.

Daðrað við Svíþjóðardemókrata

Gunnhildur segir að þó að enn sé rúmur mánuður til kosninga þá hafi kosningabaráttan í raun hafist síðasta haust.„Svíar eru náttúrulega svolítið skiplagðir og maður sá að flokkarnir voru þá flestir komnir í þann gírinn. Þó að blokkirnar séu enn nokkuð stöðugar þá hafa verið þreifingar á milli flokkanna. Þannig hefur talsvert verið rætt um það innan Moderaterna, hægri flokksins, hvort flokkurinn ætti að opna á samstarf við Svíþjóðardemókrata.Bæði Moderaterna og Kristilegir demókratar voru framan af að daðra við Svíþjóðardemókrata en svo urðu formannaskipti hjá Moderaterna í byrjun þessa árs. Ulf Kristersson tók við af Önnu Kinberg-Batra. Þá breyttist tónninn örlítið og hefur Kristersson verið skýrari í tali og sagt að Moderaterna muni ekki mynda ríkisstjórn sem Svíþjóðardemókratar eiga aðild að. Þó er athyglisvert að Moderaterna hafa reynt að lokka til baka kjósendur frá Svíþjóðardemókrötum með svipaðri orðræðu og áherslum í innflytjendamálum.

Gunnhildur Lily Magnúsdóttir starfar sem dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
Við sjáum það einnig hjá Jafnaðarmönnum, en ríkisstjórn þeirra hefur talsvert breytt sinni stefnu í innflytjendamálum, meðal annars með tímabundnum landvistarleyfum til flóttamanna og ýmsum yfirlýsingum forsætisráðherra og ríkisstjórnar um herta innflytjendalöggjöf. Þetta hefur verið að byggjast upp á síðustu misserum og er merki um að kosningabaráttan hafi þá farið í gang,“ segir Gunnhildur.

Jafnaðarmenn missa mikið fylgi

Að undanförnu hefur Jafnaðarmannaflokkurinn mælst stærstur í könnunum með um 23 til 25 prósenta fylgi. Þetta er þó miklu minna fylgi en í kosningunum 2014 þar sem flokkurinn fékk 31 prósent. Flokkurinn myndaði í kjölfar kosninga minnihlutastjórn með Græningjum þar sem Stefan Löfven settist í stól forsætisráðherra.Svíþjóðardemókratar mælast nú ítrekað annar stærsti flokkurinn með rúmlega tuttugu prósent fylgi. Flokkurinn náði fyrst mönnum inn á þing í kosningunum 2010 og náði svo 13 prósenta fylgi í kosningunum 2014. Því stefnir allt í að þingmönnum Svíþjóðardemókratar muni fjölga mikið í kosningunum.Hægriflokkurinn Moderaterna, sem vanalega hefur mælst annar stærsti flokkurinn í Svíþjóð, mælist nú jafnan þriðji stærsti með tæplega tuttugu prósent fylgi.

Hér má sjá niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar bornar saman við niðurstöður kosninganna árið 2014.Vísir

Útiloka að mynda ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum

Þrátt fyrir breytta stefnu sænsku flokkanna í innflytjendamálum þá hafa aðrir flokkar á þingi útilokað að þeir muni mynda ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum að loknum kosningum.Flokkarnir hafa að einhverju leyti reynt að hunsa Svíþjóðardemókrata á þinginu frá því að þeir náðu fyrst mönnum þar inn árið 2010. Gunnhildur segir það að mörgu leyti rétt en að flokkurinn hafi engu að síður áhrif á umræðuna.„Báðir stóru flokkarnir, Jafnaðarmenn og Hægriflokkurinn, hafa misst marga af sínum kjósendum til Svíþjóðardemókrata og þeir eru að reyna að lokka þá til baka. Við getum þó ekki sagt að Svíþjóðardemókratar hafi náð sínum stóru málum í gegn í þinginu. Við sjáum áherslubreytingar, en við getum ekki einungis bent á Svíþjóðardemókratana. Við höfum verið að sjá allt öðruvísi pólitískt landslag og áherslur í Evrópu allri en var fyrir fjórum eða átta árum. Innflytjendamál eru auðvitað miklu ofar á lista eftir 2015 – eftir þennan mikla straum flóttamanna til álfunnar sem kom þá. Þar sem ekki hefur verið samstaða innan Evrópusambandsins þá hefur innflytjendastefnan breyst í flestum Evrópulöndum. Löggjöfin hefur verið hert. Þetta eru því ekki bara áhrif af völdum Svíþjóðardemókrata. Það eru ýmsar utanaðkomandi aðstæður sem skýra breytta þróun.“

Stefan Löfven er leiðtogi sænskra Jafnaðarmanna og forsætisráðherra Svíþjóðar.Vísir/EPA

Rætt um loftslagsmál eftir skógareldana

Aðsturð um helstu kosningamálin í kosningabaráttunni enn sem komið er þá segir Gunnhildur að vissulega hafi innflytjendamálin verið ofarlega á lista. Þau hafi þó alls ekki verið allsráðandi.„Það er náttúrlega svolítið mismunandi eftir því hvern þú spyrð hvaða mál eru efst á blaði. Fyrir kjósendur Svíþjóðardemókrata eru innflytjendamálin kannski þau mikilvægustu, en heilbrigðis- og skólamál hjá kjósendum fjölda annarra flokka. Eftir skógareldana í landinu síðustu vikurnar hafa umhverfis- og loftslagsmálin einnig fengið meira vægi.“

Erfiðleikar hjá borgaralegu flokkunum

Gunnhildur segir að blokkapólitíkin í Svíþjóð sé mjög sterk enda áratuga löng hefð fyrir henni.„Það hafa verið erfiðleikar í borgaralegu blokkinni en flokkarnir hafa lýst yfir vilja til að starfa saman að loknum kosningum, það er Moderaterna, Miðflokkurinn, Frjálslyndir og Kristilegir demókratar.Núverandi ríkisstjórn Jafnaðarmanna og Græningja hefur notið stuðnings Vinstriflokksins og Vinstriflokkurinn hefur í könnunum verið að bæta mjög mikið við sig. Mælist nú með í kringum 10 prósent. Jafnaðarmannaflokkurinn hefur nánast verið í frjálsu falli – hefur mælst með í kringum 23 til 25 prósent – en það væri möguleiki að Vinstriflokkurinn gengi formlega til liðs við núverandi stjórnarflokka. Þá mælast Svíþjóðardemókratar stærri en Moderaterna, þannig að það gæti skapast flókin staða eftir kosningar.Svíþjóðardemókratar eru í oddastöðu og tilheyra tæknilega séð hvorugri blokkinni, þó þeir eigi ýmislegt sameiginlegt með borgaralegu blokkinni. Ef við lítum framhjá innflytjendamálunum þá eru þeir að stórum hluta hefðbundinn hægriflokkur. Þeir eiga samleið með Moderaterna í fjölmörgum málum, til að mynda í velferðarmálum og skattamálum.“

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata.Vísir/Getty

Erfitt að sjá hvernig Svíþjóðardemókratar komist í stjórn

Gunnhildur segir að auðvitað sé það markmið Svíþjóðardemókrata að komast í ríkisstjórn en eins og staðan sé nú og sé litið til yfirlýsinga leiðtoga annarra flokka þá eigi hún erfitt með að sjá það gerast núna. Hún segir þó ekki útilokað að Svíar muni á næstu tíu til fimmtán árum sjá sambærilega þróun og hafi orðið í dönskum stjórnmálum.Danski þjóðarflokkurinn á þar í formlegu samstarfi við hægri flokkana og ver minnihlutastjórn þriggja mið- og hægriflokka vantrausti, auk þess að fulltrúi þeirra, Pia Kærsgaard, fer með embætti forseta danska þingsins.„Við höfum séð þetta gerast víðs vegar um Evrópu, en mörgum hefði þótt það óhugsandi fyrir fimmtán, tuttugu árum.“ 

Vinstriflokkurinn inn í stjórnina?

Aðspurð um hvaða möguleikar kunni að vera í stöðunni eftir kosningarnar segir Gunnhildur að ef kosningarnar fara eins og eins og skoðanakannanirnar bendi til, þá væri möguleiki fyrir núverandi stjórnarflokka að taka Vinstriflokkinn formlega inn í ríkisstjórnarsamstarfið.

Ulf Kristersson tók verið leiðtogaembættinu í Moderaterna í byrjun árs.Vísir/Getty
„Vinstriflokkurinn hefur mikið verið að bæta við sig fylgi. Að sama skapi hafa Græningjar verið að tapa fylgi þó að það hafi aðeins lagast á síðustu vikum. Það væri kannski ágætis kostur fyrir Stefan Löfven forsætisráðherra þar sem samstarfið við Græningja hefur verið svolítið flókið. Það er ansi mikið sem ber í milli, til að mynda í innflytjendamálum en Vinstriflokkurinn er líka nokkuð langt frá núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum en það væri möguleiki að mynda slíka ríkisstjórn.Þegar kemur að borgaralegu blokkinni þá hefur Miðflokkurinn bætt við sig. Það hefur raunar rokkað svolítið og mikið verið persónufylgi formannsins, Annie Lööf. Staðan er hins vegar mjög erfið hjá borgaralegu flokkunum þar sem Kristilegir demókratar hafa tapað miklu og mælast sem stendur undir þröskuldinum og myndu ekki ná inn neinum mönnum á þing. Yrði það raunin myndi það svo hafa talsverð áhrif á skiptingu þingsæta.Svo hafa Svíþjóðardemókratar verið að bæta við sig miklu fylgi og mælast nú með um tíu prósent meira en þeir fengu í kosningunum 2014. Það er náttúrulega heilmikil fylgisaukning. Þetta er mjög flókin staða fyrir báðar blokkirnar, þó sennilega heldur flóknari fyrir borgaralegu blokkina.Þá er spurning hvort að Miðflokkurinn sé reiðubúinn að hefja ríkisstjórnarsamstarf með vinstri blokkinni. Það er það sem Löfven hefur verið að reyna að opna á. Annie Lööf hefur þó gefið það út að hún vilji starfa með borgaralegu blokkinni. Staðan er því svolítið læst.“

Æsispennandi kosningar

Gunnhildur segir kosningarnar sem fram fara 9. september vera mest spennandi kosningar sem fram hafi farið í Svíþjóð í háa herrans tíð.„Ég hef búið hér í yfir fimmtán ár og ég myndi segja að þetta væru mest spennandi kosningar sem ég hef upplifað í Svíþjóð. Þær verða æsispennandi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.