„Við þurfum drattast upp úr sófanum og segja eitthvað,“ sagði utanríkisráðherrann. „Okkar kynslóð fékk frelsi, lög og reglu, og lýðræðið í vöggugjöf. Við þurftum ekki að berjast fyrir þessum hlutum, og núna tökum við þeim sem sjálfsögðum hlut.“
Maas var að bregðast við spurningum um þá miklu spennu sem ríkt hefur í borginni Chemnitz í Þýskalandi. Á laugardaginn komu um 4.500 öfgahægrimenn saman í borginni til að mótmæla stefnu þýskra yfirvalda í flóttamannamálum. Fréttamiðlar í Þýskalandi greina frá því að einhverjir úr hópi öfgamannanna hafi veist að einstaklingum sem þeir töldu að væru innflytjendur og öskruðu: „Við erum þjóðin“ og: „Þið eruð ekki velkomin hér.“

Atburðir helgarinnar í Chemnitz þykja vera skýr vitnisburður um þann mikla klofning sem er að verða í þýsku samfélagi, þá sérstaklega með tilliti þeirrar 1 milljónar flóttamanna sem komið hafa til landsins síðan árið 2015. Hópar yst á hægrivæng stjórnmálanna hafa gagnrýnt stjórn landsins harkalega fyrir að heimila hundruðum þúsunda hælisleitenda frá stríðshrjáðum löndum, eins og Afganistan, Írak og Sýrlandi, að kom til landsins.
Katarina Barley, dómsmálaráðherra Þýskalands, blandaði sér í rannsóknina á mótmælunum í Chemnitz undanfarna daga eftir að það sást til öfgahægrimanna heilsa að hætti nasista. Hún sagði við Bild um helgina að rannsaka þyrfti hvort og með hvaða hætti skipulagðir hópar öfgamanna hefðu staðið fyrir mótmælunum. „Við munum ekki láta það viðgangast að öfgahægrimenn komi sér fyrir í samfélaginu,“ sagði Barley.
„Við verðum að bjóða öfgahægrimönnum birginn,“ sagði Maas við Bild am Sonntag í gær. „Við megum ekki líta undan. Við verðum að mótmæla nýnasistum og gyðingahöturum. Aðeins þannig afstýrum við því að orðspor Þýskalands verði endanlega eyðilagt með útlendingahatri.“
Í dag, mánudag, er gert ráð fyrir að þúsundir muni koma saman í Chemnitz á ný. Að þessu sinni er það í tengslum við tónleika sem voru skipulagðir í flýti af nokkrum af vinsælustu tónlistarmönnum Þýskalands, þar á meðal pönksveitinni Die Toten Hosen, til að mótmæla málflutningi þjóðernissinna og fordómum í garð innflytjenda.