Erlent

Frá „góðmennskunni holdgerðri“ til hryðjuverkamanns

Samúel Karl Ólason skrifar
Jalaluddin Haqqani.
Jalaluddin Haqqani. Vísir/AP

Einn af æðstu hernaðarleiðtogum Talibana og stofnandi Haqqani fylkingarinnar, Jalaluddin Haqqani, er látinn. Talibanar tilkynntu þetta í nótt en Haqqani var 71 árs og hafði verið veikur í nokkur ár. Haqqani fylkingin er ein öflugasta fylking Talibana og var stofnuð þegar Afganar börðust gegn i-Sovétríkjunum á árum áður.

Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti Haqqani eitt sinn sem miklum baráttumanni fyrir frelsi en hann var studdur af Bandaríkjunum á árum áður. Þingmaðurinn Charlie Wilson lýsti honum sem „holdgervingi góðmennsku“.

Eftir að Talibanar hertóku Kabúl árið 1996 gengu Haqqani og menn hans til liðs við þá. Síðan þá hefur fylkingin barist af mikilli hörku gegn hermönnum Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin skilgreindu Haqqani fylkinguna sem hryðjuverkasamtök árið 2012.

Jalaluddin Haqqani fæddist í Afganistan en fór til náms í Pakistan. Þegar hann sneri aftur á áttunda áratuginum skipulagði hann uppreisnarhreyfingu gegn Zahir Shah, þáverandi konungi Afganistan. Hann var þó rekinn frá Afganistan og flúði aftur til Pakistan.

Konungnum var þó velt úr sessi og kommúnistar tóku við stjórnartaumunum. Á níunda áratugnum studdu Bandaríkin uppreisn gegn ríkisstjórn Afganistan og bandamönnum þeirra í Sovétríkjunum og þá sneri Haqqani aftur til Afganistan.

Í baráttunni urðu hann og Osama Bin Laden góðir vinir.

Á undanförnum árum hefur einn af tólf sonum Haqqani leitt vígahópinn vegna þess að Haqqani glímdi við Parkinson. Hann hafði verið lamaður í tíu ár en Talibanar segja hann hafa dáið í Afganistan á mánudaginn.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.