Erlent

Hnífstungurásin sögð tryggja Bolsonaro brasilíska forsetastólinn

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Bolsonaro hvatti stuðningsmenn sína til dáða eftir að hann var stunginn í Ríó á fimmtudaginn. Hann þykir líklegur til afreka á kjördag.
Bolsonaro hvatti stuðningsmenn sína til dáða eftir að hann var stunginn í Ríó á fimmtudaginn. Hann þykir líklegur til afreka á kjördag. Fréttablaðið/AFP
Brasilíski forsetaframbjóðandinn Jair Bolsonaro liggur enn þungt haldinn á spítala eftir að hafa orðið fyrir stunguárás á stuðningsfundi í Ríó á fimmtudaginn.

Bolsonaro, sem nýtur mikillar hylli meðal brasilískra kjósenda, var fluttur með hraði undir læknishendur eftir að maður, sem lögregluyfirvöld lýsa sem andlega vanheilum, stakk hann í magann með stórum steikarhníf.

„Árásarmaðurinn sagðist vera að framfylgja vilja guðs,“ sagði Luis Boudens, yfirmaður brasilísku alríkislögreglunnar.

Bolsonaro gekkst undir skurðaðgerð og er ástand hans nú alvarlegt, en stöðugt, að sögn lækna í Ríó. Bols­onaro þarf að dvelja á spítalanum í að minnsta kosti viku. Brasilíumenn ganga til kosninga 7. október.

Brasilískir fjölmiðlar greina frá því að morðtilræðið við Bolsonaro komi til með að hafa meiriháttar áhrif á kosningabaráttuna og endan­leg úrslit kosninganna. Mikil reiði ríkir meðal kjósenda í Brasilíu sem eru orðnir langþreyttir á ítrekuðum fregnum af spillingu í æðstu röðum brasilísks samfélags. Bolsonaro hefur heitið því að taka hart á spillingu og glæpum með því að veita lögreglu víðtækari rannsóknarheimildir. Hann hefur mælst efstur í skoðanakönnunum undanfarið.

Stuðningsmenn Bolsonaro telja margir að árásin á fimmtudaginn muni tryggja honum forsetaembættið.

„Bolsonaro er nú orðinn píslarvottur,“ sagði Jonatan Valente, nemandi sem sótti vöku til stuðnings Bolsonaro í São Paulo, í samtali við fréttaveitu AP.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×