Enski boltinn

Þrjár af ásökununum á hendur Stóra Sam rangar: „FA átti að bíða eftir sönnunargögnunum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sam Allardyce fékk að stýra enska landsliðinu í 67 daga
Sam Allardyce fékk að stýra enska landsliðinu í 67 daga Vísir/Getty
Rannsóknin sem varð til þess að Sam Allardyce var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Englands átti fullan rétt á sér. Þetta er niðurstaða skýrslu um málið. BBC greinir frá.

Allardyce var rekinn 67 dögum eftir að hann tók við enska landsliðinu árið 2016. Ástæðan var grein Daily Telegraph þar sem uppljóstrað var að Allardyce hefði sagt viðskiptajöfrum frá því hvernig komast ætti í kringum félagsskiptareglur. Mennirnir sem sögðust vera viðskiptajöfrar innan fótboltaheimsins voru í raun blaðamenn í dulargervi.

Fyrrum Everton stjórinn kvartaði við Ipso, stofnunina sem sér um að fjölmiðlar á Englandi fari eftir öllum lögum og reglum (e. Independent Press Standards Organisation). Hann lagði fram 25 kvartanir vegna greinarinnar en Ipso dæmdi blaðinu í vil í 22 af 25 atvikum.

Allardyce sagði að blaðamennirnir hafi farið of langt í rannsóknavinnu sinni og blekkingin hafi ekki verið réttlætanleg. Þá hafi greinin verið ósönn og lögð fram á misvísandi hátt. Einnig sagði hann enska knattspyrnusambandið hafa verið of fljótt á sér í að reka sig eftir að greinin var birt.

„Hefði enska knattspyrnusambandið haldið loforði sínu um að bíða eftir því að sjá sönnunargögn Telegraph þá hefði það séð að þessar ásakanir voru ósannar,“ sagði Allardyce í tilkynningu í gærkvöld.

Skýrsla Ipso komst að þeirri niðurstöðu að grein Telegraph hafi verið „að mestu lagi rétt“ en fann þó hljómgrunn með þremur af kvörtunum Allardyce.

Allardyce átti að hafa sagt að þriðji aðili gæti grætt á kaupverði leikmanna, sem hann gerði ekki. Þá átti hann tvisvar að hafa boðist til þess að segja blaðamönnunum hvernig brjóta ætti eignarhaldsreglur, sem hann gerði heldur ekki. Telegraph birti leiðréttingu á þessum atvikum.

Niðurstaða skýrslunnar var þó að rannsókn Telegraph, og hversu langt hún fór, hafi verið réttlætanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×