Enski boltinn

Pellegrini vildi ekki fá Yaya Toure til West Ham

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Pellegrini og Toure þegar allt lék í lyndi
Pellegrini og Toure þegar allt lék í lyndi Getty
Fíaskóið með Yaya Toure heldur áfram, þrátt fyrir að hann sé á leið til Olympiakos í Grikklandi. Umboðsmaður hans gaf til kynna að hann væri alls ekki á leið til West Ham eftir að hafa farið í læknisskoðun í London.

Nú hefur stjóri West Ham, Manuel Pellegrini sagt að hann hafi sjálfur neitað því að fá Toure til liðs við félagið í sumar.

Yaya Toure er samningslaus en hann virðist nú á leið til Grikklands. Fílabeinsstrendingurinn fór í læknisskoðun í London í vikunni og fóru upp miklar vangaveltur, um hvaða félag hann væri að ganga til liðs við.

 

Margir héldu að hann væri á leið til West Ham og spila þar undir stjórn Pellegrini en þeir unnu saman hjá Manchester City og urðu Englandsmeistarar tímabilið 2013-14

 

Það var hins vegar skotið niður snarlega þegar umboðsmaður Toure, Dimitry Seluk sagði á Twitter að Toure væri meistari, síðasta sætið væri ekki staður fyrir hann.





Nú hefur Pellegrini gefið það út að hann hafi talað við Toure og að Fílabeinsstrendingurinn hafi viljað vera áfram í ensku úrvalsdeildinni.

 

„Því miður eru þetta orð umboðsmanns Toure,“ sagði Pellegrini.

 

„Ég talaði við Toure, ég þekki hann og kann að meta hann sem persónu. Hann er frábær leikmaður, en þegar við fórum yfir leikmannalistann okkar, voru leikmenn nú þegar í okkar röðum sem leika í hans stöðum. Ég vona að hann finni gott félag, stórt félag, því hann er frábær leikmaður.“

 

Toure virðist nú vera á leið til Olympiakos en þar lék hann tímabilið 2005-06.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×