Erlent

Trump kemur fyrrverandi andstæðingi til aðstoðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Ted Cruz.
Donald Trump og Ted Cruz. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að hjálpa þingmanninum Ted Cruz að ná endurkjöri í Texas. Það er þrátt fyrir að þeir hafi eldað grátt silfur saman í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Trump sagði frá því á Twitter í kvöld að hann myndi halda kosningafund í Texas í október.



Það er greinilegt að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá kosningabaráttunni þegar þeir veittust ítrekað að hvorum öðrum.

Trump sagði eitt sinn að Cruz hefði aldrei áorkað neinu. Hann gaf í skyn að eiginkona Cruz væri ljót og stakk jafnvel upp á því að faðir Cruz hefði komið að morði John F. Kennedy fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þá gaf Trump Cruz viðurnefnið „ljúgandi Ted“.

Cruz kallaði Trump eitt sinn heigul, rað-framhjáhaldara og lygara og gaf hann í skyn að Repúblikanar ættu ekki að kjósa Trump.

Ákvörðun Trump þykir til marks um vandræði Cruz við að halda þingsæti sínu, sem fyrir einungis nokkrum mánuðum var talið eitt öruggasta sæti Repúblikana á öldungadeildinni. Mótframbjóðandi Cruz, Beto O‘Rourke, hefur verið að sækja í sig veðrið.

Repúblikanar haf sett aukinn kraft í fjáröflun og ætla sér að setja í gang stærðarinnar auglýsingaherferð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×