Enski boltinn

Þessir tveir mynda besta miðvarðarparið undir stjórn Jose Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jones og Jose Mourinho.
Phil Jones og Jose Mourinho. Vísir/Getty
Varnarleikur Manchester United hefur verið mikið í umræðunni. Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho vildi endilega kaupa miðvörð/miðverði í sumar og liðið fékk síðan á sig þrjú mörk á móti Brighton um síðustu helgi þar sem miðvarðarparið átti slakan leik.

Sky Sports veltir fyrir sér vandræðum United-liðsins í vörninni og tók sig til um leið og fann út með hvaða miðvarðarpari hefur gengið best hjá liði Manchester United síðan að Jose Mourinho settist í stjórastólinn.

Miðvarðarpar helgarinnar, Svíinn Victor Lindelof og Fílabeinsstrendingurinn Eric Bailly, koma ekki vel út (50 prósent sigurhlutfall) en þó betur en þeir Victor Lindelof og Phil Jones sem hafa enn ekki unnið leik saman undir stjórn Mourinho.





Vandamálið við þá Lindelof og Bailly er að Mourinho keypti þá báða og borgaði 65 milljónir punda fyrir. Engir smáaurar og þetta ættu því að vera menn í lagi. Annað kom þó á daginn á móti Brighton.

Sumir stuðningsmenn Manchester United halda örugglega að besta miðvarðarparið séu þeir Chris Smalling og Phil Jones en þeir hafa spilað flesta leiki saman undir stjórn Mourinho. United-liðið hefur hins vegar aðeins unnið 46 prósent þeirra leikja.

Tölfræðin segir að besta miðvarðarparið undir stjórn Jose Mourinho sé samvinna á milli þeirra Phil Jones og Eric Bailly. Manchester United hefur unnið 8 af 9 deildarleikjum sínum með þá tvo í miðri vörninni eða 88,9% prósent leikjanna.

Eitt helsta vandamálið með þá Phil Jones og Eric Bailly er að það er ekki hægt að treysta nógu mikið á þá því þeir eru alltaf að meiðast.

Manchester United hefur einnig unnið 86 prósent deildarleikjanna með þá Chris Smalling og Lindelof saman í hjarta varnarinnar.

Knattspyrnuspekingurinn Gary Neville og fyrrverandi varnarmaður hjá Manchester United segist vera viss um hvað Jose Mourinho gerir með vörnina sína eftir Brighton-skellinn.

„Ég held að tapið á móti Brighton munu þvinga Manchester United og Jose Mourinho til að nota þrjá miðverði,“ sagði Gary Neville í Gary Neville hlaðvarpinu.

Það má finna meira um úttekt Sky Sports hér og hér fyrir neðan má sjá listann hjá Sky Sports yfir bestu miðvarðartvennu United.

Besta miðvarðarpar Man. United í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Jose Mourinho:

1. Jones/Bailly     9 leikir (88.9% sigurhlutfall)

2. Lindelof/Smalling     7 leikir (86% sigurhlutfall)

3. Bailly/Smalling     7 leikir (55% sigurhlutfall)

4. Lindelof/Bailly     2 leikir (50% sigurhlutfall)

5. Smalling/Jones     13 leikir (46.1% sigurhlutfall)

6. Lindelof/Jones     2 leikir (0% sigurhlutfall)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×