Enski boltinn

Var á hraðferð upp metorðastigann en hætti og er að flytja til Noregs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ég er farinn til Noregs.
Ég er farinn til Noregs. vísir/getty
Enski úrvalsdeildardómarinn Bobby Madley hætti óvænt að dæma þar í landi um daginn þegar að enska dómarasambandið gaf út stutta yfirlýsingu að vegna breytinga á fjölskylduaðstæðum væri hann búinn að leggja flautuna á hilluna.

Þetta kom öllum verulega á óvart því Madley er aðeins 32 ára gamall og var á hraðferð upp metorðastigann á Englandi. Hann var fyrr á þessu ári settur á FIFA-listann sem þýðir að dómaraferill hans í Evrópu var að fara af stað.

Þrátt fyrir að Madley hafi verið nokkuð umdeildur á síðustu leiktíð fyrir nokkrar áhugaverðar ákvarðanir og misgóða frammistöðu var honum augljóslega ætlaðir stórir hlutir. Hann var ítrekað settur á stórleiki og dæmdi leikinn um góðgerðarskjöldinn.

Nú greinir Daily Mail frá því að ástæða þess að Madley sé hættur að dæma í ensku úrvalsdeildinni sé að hann er fluttur til Noregs með kærustu sinni sem er frá Noregi.

Ekki er vitað enn þá hvort Madley ætli að dæma í norsku úrvalsdeildinni eða hvort hann sé alfarið hættur að blása í flautuna aðeins 32 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×