Enski boltinn

Gætu þurft að spila bikarleik á hlutlausum velli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wembley hefur verið heimavöllur Tottenham síðasta árið
Wembley hefur verið heimavöllur Tottenham síðasta árið Vísir/Getty
Vallarvandræði Tottenham halda áfram og þeir gætu þurft að spila fyrsta leik sinn í enska deildarbikarnum á hlutlausum velli.

Tottenham spilaði alla heimaleiki sína á síðasta tímabili á Wembley á meðan verið var að byggja nýjan heimavöll liðsins. Nýi völlurinn átti að vera tilbúinn fyrir þetta tímabil en nú liggur fyrir að völlurinn verður ekki tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi í lok október.

Spurs hefur fengið að nota Wembley áfram í fyrstu heimaleikjum sínum í úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu. Þjóðarleikvangurinn er hins vegar upptekinn í lok september þegar þriðja umferð ensku deildarbikarkeppninnar fer fram.

Fari svo að Tottenham dragist á heimavelli í þeirri umferð þá hefur félagið engan leikvöll til þess að spila leikinn á.

Stuðningsmannafélag Tottenham hefur sett í loftið könnun þar sem stuðningsmenn eru spurðir hvort þeir vilji gefa heimaréttinn til andstæðingsins eða spila á hlutlausum velli.

Liðunum er ekki skipt í styrkleikaflokka í enska deildarbikarnum á þessu tímabili og því gæti Tottenham dregist gegn einu af hinum stóru liðunum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti í haust sem þessi staða kemur upp. Tottenham á stórleik á heimavelli gegn Manchester City 28. október. Ekki er ljóst hvort völlurinn verði tilbúinn þá og Wembley er upptekinn þar sem það er NFL leikur á dagskrá þann dag.

Dregið verður í þriðju umferðina í nótt. Drátturinn fer fram í Kína þar sem styrktaraðili bikarsins, Carabao, er með höfuðstöðvar í Asíu. Hann hefst klukkan 11.15 að staðartíma í Beijing.


Tengdar fréttir

NFL-deildin að trufla heimaleik hjá Tottenham

Það er allt á öðrum endanum hjá heimavallarráði Tottenham þar sem enska félagið er í miðjum klíðum við að endurraða heimaleikjum haustsins eftir að ljóst varð að nýr leikvangur félagsins yrði ekki tilbúinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×