Enski boltinn

Ríkur frændi vill kaupa Liverpool en félagið er ekki til sölu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp fær áfram greitt frá FSG.
Jürgen Klopp fær áfram greitt frá FSG. vísir/getty
Eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool ítreka í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í gærkvöldi að félagið er ekki til sölu. Sky Sports greinir frá.

Yfirlýsinguna sendu þeir frá sér vegna meints áhuga frænda Sheik Mansour, eiganda Manchester City, á að kaupa félagið en Daily Mail greindi frá því í gær að hann hefði gert tveggja milljarða punda tilboð í Liverpool undir lok árs 2017.

FSG, eigendahópur Liverpool, keypti félagið fyrir 300 milljónir punda árið 2010 og horfir nú til betri vegar innan vallar. Hópurinn vildi því ekki selja það með húð og hári til Sheik Khaled Bin Zayed Al Nehayan, frænda Mansour.

„FSG hefur alltaf sagt að félagið er ekki til sölu,“ segir í yfirlýsingunni en fjárfestum gæti staðið til boða að kaupa hlut í félaginu þó FSG vilji halda sér í meirihluta.

„Það sem eigendahópurinn hefur alltaf sagt er að með réttum skilmálum værum við tilbúnir til að taka inn minnihluta fjárfesta sem væri tilbúinn í að fjárfesta í framtíð félagsins.“

FSG á einnig bandaríska hafnaboltaliðið Boston Red Sox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×