Íslenski boltinn

Blikar aftur á toppinn og FH-ingar hanga á bláþræði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir stefnir á gullskóinn í haust
Berglind Björg Þorvaldsdóttir stefnir á gullskóinn í haust Fréttablaðið/Anton brink
Breiðablik endurheimti toppsætið í Pepsi deild kvenna með sigri á FH í Kaplakrika í dag. Blikar eru nú með tveggja stiga forystu á Þór/KA þegar þrjár umferðir eru eftir.

Nýkrýndir bikarmeistarar Blika kunna ekki að tapa, þær hafa bara gert það einu sinni í sumar, gegn Þór/KA á Akureyri í júní.

Það tók Blikana þó klukkutíma að finna marknetið í Krikanum í dag. Berglind Björg Þorvaldsdóttir braut ísinn á 59. mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti sendinguna inn á Berglindi sem skallaði boltann í netið.

Agla María Albertsdóttir bætti öðru marki við tíu mínútum seinna með glæsilegu skoti og Berglind Björg gulltryggði sigurinn á 81. mínútu. Lokatölur 3-0.

FH situr eftir í botnsætinu með sex stig og er vonin veik fyrir FH-inga að halda sér í deildinni. Þegar níu stig eru í pottinum munar sex stigum á FH og KR í 8. sætinu eftir úrslit leiks HK/Víkings og Grindavíkur.

Upphaflega sagði í fréttinni að FH væri fallið þar sem HK/Víkingur fór í 16 stig, en við það fór KR í áttunda sætið og á FH enn möguleika á því að komast upp fyrir KR-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×