Enski boltinn

Michael Owen hataði síðustu árin á ferlinum: „Þetta var hræðilegt“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Owen spilaði fyrir Manchester United undir lok ferils síns
Owen spilaði fyrir Manchester United undir lok ferils síns Vísir/Getty
Michael Owen var einn efnilegasti fótboltamaður heims þegar hann var ungur. Meiðsli komu í veg fyrir að hann næði þeim hæðum sem margir bjuggust við og hann hataði síðustu ár ferils síns.

Owen var í opinskáu viðtali á BT Sport um helgina þar sem hann fór yfir feril sinn. Owen skoraði 222 mörk í 482 leik á ferlinum og spilaði fyrir Liverpool, Real Madrid, Newcastle, Manchester United og Stoke. Hann á einnig 40 landsliðsmörk í 89 leikjum fyrir England.

Árið 2001 fékk hann Gullboltann aðeins 21 árs. Verðlaun sem veitt eru besta fótboltamanni ársins. Hann er aðeins einn af fjórum Englendingum sem hafa unnið veðrlauninn.

„Ég fékk Gullboltann afhentan hér [á Anfield] en ég hugsaði bara: Farið með hann í burtu, ég þarf að fara að spila leik,“ sagði Owen þegar hann rifjaði upp þetta augnablik.

Owen átti frábæran feril með Liverpoolvísir/getty
„Þú getur pússað verðlaunin þín þegar þú ert hættur. Á meðan ferlinum stendur ertu alltaf að hugsa um næsta leik, hvar eru næstu verðlaun sem ég get náð í.“

Owen fór til Manchester United árið 2009 og var þar til árið 2012. Á þessum þremur árum spilaði hann 52 leiki og skoraði 17 mörk. Hann fór til Stoke sumarið 2012 og á síðasta ári ferilsins tók hann aðeins þátt í níu leikjum og skoraði eitt mark.

„Síðustu sex, sjö árin á ferlinum var ég skíthræddur við að spretta og hlaupa í svæði því ég gæti rifið eitthvað. Það versta sem þú getur gert er að efast og hika.“

„Ég hataði þennan tíma. Ég gat ekki beðið eftir því að hætta síðustu árin á ferlinum. Ég var ekki ég.“

„Ég gat ennþá skorað, ég vissi hvert boltinn var að fara og gat mætt og klárað. Svo undir lokin hugsuðu allir: Michael Owen er frábær markaskorari en getur ekki mikið annað.“

„Þessi ár voru hræðileg.“

„Ég dáist að fólki sem spilar fyrir ástina á leiknum. En fyrir mig var þetta hræðilegt,“ sagði Michael Owen.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×