Enski boltinn

Heimsmethafi kennir leikmönnum Liverpool að taka innköst í vetur | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Grönnemark veit hvað hann syngur í innkast-fræðunum.
Thomas Grönnemark veit hvað hann syngur í innkast-fræðunum. mynd/skjáskot
Allt er nú til í boltanum nú til dags, meðal annars sérfræðingar í innköstum. Skyldi svo sem engan undra miðað við hversu mikið hægt er að fá út úr þeim eins og íslenska landsliðið hefur margsinnis sannað á undanförnum árum.

Liverpool hefur ráðið til sín danskan sérfræðing í innköstum sem mun kenna leikmönnum liðsins að grýta boltanum af krafti inn á teiginn í vetur en maðurinn heitir Thomas Grönnemark og hefur áður starfað fyrir Schalke, Herthu Berlín og Midtjylland.

Grönnemark veit hvað hann syngur í þessum efnum en hann á heimsmetið þegar kemur að löngu innkasti. Hann hefur lengst varpað boltanum 51,33 metra.

Grönnemark var einn af mönnunum á bak við frábæran árangur danska úrvalsdeildarliðsins FC Midtjylland í Evrópudeildinni fyrir þremur árum síðan en það var þá þekkt fyrir sterk föst leikatriði.

„Löng innköst geta verið vopn séu þau framkvæmd með réttri tækni og mikilli nákvæmni. Það er mikilvægt að þau séu flöt því auðvelt er að verjast of háum innköstum. Það er auðveldara að skora með flötu innkasti sem er nákvæmt,“ segir Thomas Grönnemark.

Hér að neðan má sjá stutt kennslumyndband frá Dananum þar sem að hann kennir tvö trix úr bókinni sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×