Íslenski boltinn

40 ár síðan að Skagamenn enduðu loksins eina ótrúlegustu bið íslenskrar knattspyrnusögu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frétt Tímans um sigur Skagamanna 1978.
Frétt Tímans um sigur Skagamanna 1978. Mynd/Forsíða íþróttablaðs Tímans 28. ágúst 1978
27. ágúst var stór dagur í sögu fótboltans á Akranesi því á þessum degi fyrir 40 árum og einum degi náðu Skagamenn loksins að vinna bikarkeppni karla.

Árið var 1978 og Skagamenn höfðu þá tíu sinnum unnið Íslandsmeistaratitilinn og komist átta sinnum áður alla leið í bikarúrslitaleikinn.

Allir þessir átta bikarúrslitaleikir höfðu hins vegar tapast allt frá fyrsta bikarúrslitaleik ÍA á móti KR árið 1961 til þess síðasta á móti Val árið 1976. KR (3 sinnum), Valur (3 sinnum), Keflavík (1 sinni) og ÍBA (1 sinni) höfðu öll orðið bikarmeistarar eftir sigur á ÍA í bikarúrslitaleik á þessu fimmtán ára tímabili.

Það var enginn annar en Pétur Pétursson sem tryggði ÍA fyrsta bikarmeistaratitilinn á Laugardalsvellinum 27. ágúst 1978. Þetta sumar setti Pétur markamet með því að skora 19 mörk í deildinni og alls skoraði hann 32 mörk í öllum keppnum. Pétur fór í framhaldinu til hollenska stórliðsins Feyenoord.

Það er líka óhætt að segja að Skagamenn hafi þarna kveðið niður bikardrauginn því ÍA hefur síðan unnið átta af níu bikarúrslitaleikjum sínum eða alla bikarúrslitaleiki nema þann sem KR vann á hundrað ára afmæli félagsins árið 1999.

Skagamenn hafa alltaf haldið vel utan um sögu sína og á fésbókarsíðunni „Á Sigurslóð“ er rifjaður upp þessi fyrsti bikarmeistaratitill félagsins fyrir fjórum áratugum síðan. Umfjöllunina má sjá hér fyrir neðan.

Frétt um leikinn i Vísi.
Frétt um leikinn i Tímanum.
Frétt um leikinn i Tímanum.
Frétt um leikinn i Þjóðviljanum.
Forsíða íþróttablaðs Vísis.
Forsíða íþróttablaðs Morgunblaðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×