Enski boltinn

Aston Villa og Cardiff úr leik í enska deildarbikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik Burton og Aston Villa í kvöld.
Úr leik Burton og Aston Villa í kvöld. vísir/getty
Íslendingaliðin Aston Villa og Cardiff eru úr leik í enska deildarbikarnum þetta árið eftir tap í annarri umferð keppninnar.

Aston Villa tapaði 1-0 gegn C-deildarliði Burton Albion. Sigurmarkið kom í upphafi síðari hálfleiks. Birkir Bjarnason var ónotaður varamaður hjá Aston Villa.

Cardiff tapaði 3-1 fyrir Norwich á heimavelli en Norwich leikur í B-deildinni þetta tímabilið. Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla.

Cardiff er ekki eina úrvalsdeildarliðið sem er úr keppni því Brighton er einnig úr keppni eftir 1-0 tap gegn Southampton. Charlie Austin skoraði eina markið á 88. mínútu.

Huddersfield er einnig úr keppni eftir 2-0 tap gegn Stoke en Saido Berahino skoraði sjaldgæft mark og síðara markið var sjálfsmark.

Leicester rúllaði yfir Joey Barton og lærisveina í Fleetwood, 4-0, og Fulham kláraði Exeter, 2-0. West Ham vann 3-1 sigur á Wimbledon eftir að hafa lent undir.

Crystal Palace vann 1-0 sigur á Swansea með marki Alexander Soerloth og Leeds tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu er liðið tapaði 2-0 gegn Preston á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×