Erlent

Tengdaforeldrar Trump fá ríkisborgararétt þrátt fyrir gagnrýni hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Knavs-hjónin eru orðin bandarískir ríkisborgarar en þau eru upprunin í Slóveníu.
Knavs-hjónin eru orðin bandarískir ríkisborgarar en þau eru upprunin í Slóveníu. Vísir/EPA
Amalija og Viktor Knavs, foreldrar Melaniu Trump, eiginkonu Bandaríkjaforseta, fengu bandarískan ríkisborgararétt í gær. Réttinn fengu þau í gegnum heimild í bandarískum útlendingalögum sem Trump forseti hefur ítrekað fundið flest til foráttu.

Svokallaður „keðjuinnflutningur“ (e. chain immigration) þar sem innflytjendur í Bandaríkjunum geta fengið landvistarleyfi fyrir fjölskyldu sína hefur verið Donald Trump Bandaríkjaforseta þyrnir í augum.

Hann hefur krafist þess að kerfið verði aflagt og þess í stað verði landvistarleyfi og ríkisborgararéttur veittur á grundvelli verðleika þannig að sérfræðingar komi frekar til landsins en fjölskyldur innflytjenda.

Forsetinn virðist þó ekki hafa sett sig upp á móti því að hans eigin tengdaforeldrar nýttu sér þessa heimild. Þau sóru ríkisborgaraeið við athöfn í New York í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Lögmaður Knavs-hjónanna, sem eru upprunin í Slóveníu, segir að þau hafi fram að þessu búið í Bandaríkjunum á grænu korti sem þau gátu fengið vegna stöðu dóttur þeirra. Melania Trump hefur verið bandarískur ríkisborgari frá árinu 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×