Erlent

Strangari umhverfisreglur drógu verulega úr mengun

Kjartan Kjartansson skrifar
Framleiðsla bandarískra verksmiðja jókst þrátt fyrir að losun þeirra á mengandi efnum drægist saman um 60% á sama tíma.
Framleiðsla bandarískra verksmiðja jókst þrátt fyrir að losun þeirra á mengandi efnum drægist saman um 60% á sama tíma. Vísir/EPA
Mengandi útblástur frá bandarískum verksmiðjum dróst saman um 60% frá árinu 1990 til 2008 þrátt fyrir að framleiðsla þeirra hafi aukist á sama tíma. Meginástæðan var sú að verksmiðjurnar tóku upp hreinni framleiðsluaðferðir til að uppfylla strangari umhverfisreglugerðir.Þetta er niðurstaða tveggja hagfræðinga við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Þeir rekja samdráttinn í útblæstri til loftgæðalaga (e. Clean Air Act) sem sett voru á 7. áratug síðustu aldar og frekari reglna sem settar voru á grundvelli þeirra.Þeir lögðust yfir gögn frá 1.400 verksmiðjum í Bandaríkjunum á þessu tæplega tveggja áratuga tímabili og báru saman við losunartölur. Greindu þeir síðan samdráttinn í losun og hvað hefði valdið honum, að því er segir í frétt á vef Kaliforníuháskóla.Breyting á framleiðslutækni var aðalástæðan fyrir því að losun á efnum eins og nituroxíðum, brennisteinsdíoxíði og kolmónoxíði dróst mikið saman. Þetta gerðist jafnvel þó að framleiðslan væri 30% meiri árið 2008 en árið 1990.Á tímabilinu telja þeir að umhverfisreglugerðir hafi orðið tvöfalt strangari. Þeir Joseph Shapiro, aðstoðarprófessor í landbúnaðar- og auðlindahagfræði, og Reed Walker, aðstoðarprófessor við Haas-viðskiptaskólann, telja að rekja megi mestan hluta samdráttarins í losun til þess. Þeir afskrifa að aðrir þættir eins og flótti verksmiðjuframleiðslu frá Bandaríkjunum til landa eins og Kína og Mexíkó hafi valdið samdrættinum.„Á sjöunda og átta áratugnum hafði fólk áhyggjur af því að loftmengunin yrði óbærileg í Los Angeles, New York og öðrum bandarískum borgum fyrir lok 20. aldarinnar. Í staðinn hefur loftmengun hrapað og gögnin sýna að umhverfisreglur og hreinsun á framleiðsluferlum sem tengist þeim hafi leikið lykilhlutverk í þessum mikla samdrætti,“ segir Shapiro.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.