Erlent

Nóbelshöfundurinn VS Naipaul látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Naipaul þegar hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2001.
Naipaul þegar hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2001. Vísir/EPA
Rithöfundurinn VS Naipaul sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2001 er látinn, 85 ára að aldri. Þekktasta verk hans var bókin „Hús fyrir herra Biswas“.

Naipaul fæddist á Trínidad árið 1932 en hann var af indverskum ættum. Hann fluttist til Bretlands árið 1050 þar sem hann hóf bókmenntaferil sinn. Hann skrifaði fleiri en þrjátíu bækur um ævina og var á meðal fyrstu rithöfundanna til að hljóta bresku Booker-bókmenntaverðlaunin, að því er kemur fram í andlátsfrétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Skrif Naipaul fjölluðu meðal annars um nýlendustefnu Breta á gagnrýninn hátt og endalok breska heimsveldisins. Í umsögn Nóbelsnefndarinnar árið 2001 sagði að Naipaul væri nútímaheimspekingur og að skrif hans hafi opnað augu fólks fyrir sögu sem bæld hefði verið niður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.