Erlent

Saka rekstraraðila brúarinnar um vanrækslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tala látinna hefur hækkað upp í 38 og er enn leitað að týndu fólki í braki brúarinnar.
Tala látinna hefur hækkað upp í 38 og er enn leitað að týndu fólki í braki brúarinnar. Vísir/AP
Ríkisstjórn Ítalíu ætlar að rifta samningi sínum við fyrirtækið Autostrade, sem meðal annars hefur séð um rekstur brúarinnar sem hrundi í Genúa í gær. Þar að auki stendur til að sekta fyrirtækið um 150 milljónir evra. Aðstoðarforsætisráðherra landsins segir að hægt hefði verið að komast hjá slysinu og sakaði Autostrade um að viðhalda brúnni ekki.

Tala látinna hefur hækkað upp í 38 og er enn leitað að týndu fólki í braki brúarinnar. Um 200 metra langur hluti hennar hrundi úr tæplega 50 metra hæð. Á fjórða tug bíla voru á brúnni.



Búist er við því að leitin muni taka nokkra daga.

Sjá einnig: Leita enn að fólki í brakinu í Genúa



Brúin sem um ræðir var byggð á sjöunda áratugi síðustu aldar. Hins vegar voru gerðar endurbætur á henni árið 2016. Þá stóð yfir vinna við að styrkja brúna þegar hún hrundi. Brúin hrundi á hús, vegi og lestarteina. Rúmlega 400 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín af vegna áhyggja um að frekari hlutar brúarinnar muni hrynja.

Samkvæmt umfjöllun BBC hafa margir haft áhyggjur af ástandi brúarinnar á undanförnum árum. Fimm brýr hafa hrunið á Ítalíu á síðustu fimm árum.



Árið 2016 sagði byggingarfræðingur að mistök hefðu verið gerð við smíði hennar. Autosrade mun hafa viðurkennt árið 2011 að ástand brúarinnar hefði versnað vegna mikillar umferðar. Þá var ástand brúarinnar tekið fyrir á fundi borgarráðs Genúa í desember 2012. Þá sagði einn embættismaður að brúin myndi hrynja á næstu tíu árum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×