Íslenski boltinn

Ólafur Kristjáns: Við erum í góðri stöðu

Einar Sigurvinsson skrifar
„Þetta er gott lið, þeir eru góðir með boltann og vel skipulagðir. Úrslitin í fyrri leiknum gefa okkur von en við þurfum að eiga virkilega góðan leik á morgun til þess að fara í gegnum þá,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, þegar Arnar Björnsson ræddi við hann í gær.

Í kvöld mætir FH ísraelska liðinu Hapoel Haifa í seinni viðureign liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Fyrri leiknum í Ísrael lauk 1-1 þar sem Eddi Gomes skoraði gott útivallarmark fyrir FH.

„Þeir munu að sjálfsögðu herja á okkur. Þeir voru súrir með niðurstöðuna í síðasta leik.“

Ólafur segir að verkefnið verði langt frá því að vera auðvelt. Haifa liðið muni liggja aftarlega og gera út á skyndisóknir.

„Þeir eru með framherja sem kom inn á í fyrri leiknum, stór og sterkur. Hann gæti ógnað okkur í fyrirgjöfum og slíku, en við erum með ráð við því. Þetta er bara heilsteypt lið og þeir voru erfiðir.“

Þrátt fyrir að vera ljóst að um erfitt verkefni sé að ræða telur Ólafur möguleika FH-inga til að komast áfram nokkur góða.

„Við erum í góðri stöðu. Við komum okkur í góða stöðu með því að skora þetta útivallarmark og settum þetta í 50/50 einvígi. Við ætlum að láta vel á það reyna að komast áfram,“ sagði Ólafur að lokum en viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.

Leikur FH og Hapoel Haifa hefst klukkan 19:15 í kvöld og hefst útsending á Stöð 2 Sport klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×