Erlent

ISIS-liðar felldir af Ísrael og Jórdaníu

Samúel Karl Ólason skrifar
ISIS-liðar hafa misst yfirráðasvæði sitt í suðvesturhluta Sýrlands.
ISIS-liðar hafa misst yfirráðasvæði sitt í suðvesturhluta Sýrlands. Vísir/AP
Yfirvöld Ísrael og Jórdaníu segja að vígamenn Íslamska ríkisins sem flúið hafi sókn stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í átt að landamærum ríkjanna hafi verið felldir. Assad-liðar hafa nú náð fullri stjórn á svæðinu við landamæri Sýrlands og Ísrael og er það í fyrsta sinn frá því að átökin hófust þar í landi árið 2011. Svæðið var áður undir stjórn vígahópsins Khaled Bin Walid Army, sem hafa lýst yfir hollustu við Íslamska ríkið.

Ísraelsmenn segjast hafa fellt sjö vígamenn í Gólanhæðum í gærkvöldi og að þeir hafi verið vopnaðir rifflum og handsprengjum. Þá segja yfirvöld Jórdaníu að her þeirra hafi staðið í löngum skotbardaga við vígamenn innan landamæra Jórdaníu og ótilgreindur fjöldi þeirra hafi verið felldur á sólarhring.



Mikil spenna hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur. Sókn Assad-liða hefur rekið þúsundir manna á flótta í átt að landamærum Ísrael og Jórdaníu og Ísraelsmenn hafa áhyggjur af því að bandamenn Assad innan Íran og Hezhbolla hryðjuverkasamtakanna, sem stutt hafa dyggilega við bakið á Assad, ætli sér að koma sér fyrir við landamærin.

Ísraelsmenn skutu niður sýrlenska orrustuþotu sem þeir segja að hafi verið flogið inn fyrir lofthelgi þeirra.



Yfirvöld Rússlands hafa tilkynnt að herlögregla þeirra muni vera með aðstöðu við landamærin með því markmiði að stilla til friðar. Átta eftirlitsstöðvum verði komið fyrir og að stjórnarher Assad muni taka við þeim þegar ástandið róist.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×