Enski boltinn

Kanu: Kraftaverk ef Arsenal vinnur deildina

Einar Sigurvinsson skrifar
Kanu fagnar marki með Thierry Henry.
Kanu fagnar marki með Thierry Henry. getty
„Ef Arsenal vinnur deildina, er það kraftaverk,“ segir fyrrum leikmaður Arsenal, Nwankwo Kanu.

Kanu lék yfir 100 leiki fyrir Arsenal og hjálpaði liðinu að verða Englandsmeistari árið 2002 og 2004, en í seinna skiptið tapaði liðið ekki leik.

Unai Emery er að stýra Arsenal á sínu fyrsta tímabili en þessi fyrrum knattspyrnustjóri PSG og Sevilla hefur sagt að markmiðið sé sett titilbaráttu.

„Þetta verður mikil áskorun fyrir nýja knattspyrnustjórann. Stuðningsmennirnir vilja sjá árangur strax á hans fyrsta ári, það er alltaf erfitt fyrir nýjan þjálfara,“ segir Kanu.

Emery hefur fengið til sín fimm nýja leikmenn í félagaskiptaglugganum og segir Kanu að þeim verði að gefa tíma.

„Það tekur tíma fyrir nýju leikmennina að aðlagast. Við verðum að gefa Emery tíma til að koma inn með sinn stíl og þann leik sem hann vill spila.“

„Þetta er mjög stórt félag. Þegar þú kemur inn í stór félag er ætlast til þess að þú vinnir titla. Þannig að ef þú vinnur ekki deildina, þarftu að vinna eitthvað annað. Það er erfitt, en það er það sem er ætlast til af þjálfara með þessa reynslu hjá stóru félagi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×