Erlent

Fyrsti stuðningsmaður Trump á þingi ákærður og handtekinn fyrir innherjasvik

Kjartan Kjartansson skrifar
Collins var einn fyrsti þingmaður repúblikana sem lýsti yfir stuðningi við Donald Trump í forvali repúblikana á sínum tíma.
Collins var einn fyrsti þingmaður repúblikana sem lýsti yfir stuðningi við Donald Trump í forvali repúblikana á sínum tíma. Vísir/Getty

Þingmaður Repúblikanaflokksins frá New York hefur verið ákærður og handtekinn fyrir innherjasvik. Hann var einn fyrsti þingmaðurinn til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframboð Donalds Trump á sínum tíma.

Saksóknarar í New York saka Christopher Collins, þingmann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, um að hafa reynt að afla sér innherjaupplýsinga hjá líftæknifyrirtæki þar sem hann var stjórnarmaður og nýta upplýsingarnar á hlutabréfamarkaði.

Sonur Collins og faðir unnustu sonarins eru einnig ákærðir vegna svikanna, að sögn AP-fréttastofunnar.

Samkvæmt ákærunni reyndu þremenningarnir að fá upplýsingar um niðurstöður tilrauna fyrirtækisins með lyf sem það var að þróa gegn mænusiggi. Collins hafi komið innherjaupplýsingunum áfram til sonar síns sem deildi þeim með tengdaföður sínum.

Hlutabréf í fyrirtækinu féllu um 92% í verði þegar greint var frá því tilraunirnar hefðu ekki borið árangur. Collins átti nærri því sautján prósenta hlut í Innate Immunotherapeutics, áströlsku fyrirtæki með höfuðstöðvar á Nýja-Sjálandi. Saksóknararnir segja að með því að selja bréf sín áður en greint var frá niðurstöðum rannsóknanna hafi þeir komið sér undan hátt í 800.000 dollara tapi.

Collins hefur lýst yfir sakleysi sínu. Þegar siðanefnd fulltrúadeildarinnar kannaði ásakanirnar gegn honum í fyrra kallaði Collins rannsóknina „flokkspólitískar nornaveiðar“. Collins hefur verið einn einarðasti stuðningsmaður Trump forseta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.