Erlent

Fyrrverandi forseti Síle tilnefndur mannréttindastjóri SÞ

Kjartan Kjartansson skrifar
Michelle Bachelet fyrrverandi forseti Síle.
Michelle Bachelet fyrrverandi forseti Síle. Nordicphotos/AFP
Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Síle, hefur verið tilnefnd sem næsti mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Allsherjarþingið þarf að staðfesta skipan Bachelet. Hún stýrði áður stofnun Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna.

Reuters-fréttastofan segir að Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, hafi valið Bachelet til þess að taka við af Jórdananum Zeid Ra‘ad al-Hussein sem hættir um mánaðamótin eftir fjögurra ára starf. Hann hefur verið gagnrýninn á stefnu Donalds Trump Bandaríkjaforset og framgöngu Ísraelshers gegn Palestínumönnum.

Bachelet var forseti Síle frá 2006 til 2010 og aftur frá 2014 til 2018. Hún er barnalæknir sem sneri sér síðar að stjórnmálum. Hún mátti þola pyntingar af hálfu einræðisstjórnar Augusto Pinochet.

Á milli þess sem Bachelet gegndi embætti forseta heimalandsins stýrði hún UN Women, stofnun SÞ um kynjajafnrétti frá 2010 til 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×