Erlent

Trump segist tilbúinn að hitta forseta Írans

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump sagðist tilbúinn að hitta hvern sem er með Guiseppe Conte, ítalska forsætisráðherrann, sér við hlið.
Trump sagðist tilbúinn að hitta hvern sem er með Guiseppe Conte, ítalska forsætisráðherrann, sér við hlið. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist reiðubúinn að hitta Hassan Rouhani, forseti Írans, hvenær sem hann vill og án nokkurra skilyrða. Grunnt hefur verið á því góða hjá Trump og Rouhani sem skiptust nýlega á hótunum á samfélagsmiðlum.

„Ef þeir vilja hittast þá hittumst við,“ sagði Trump þegar fréttamenn spurðu hann út í samskiptin við Íran á blaðamannafundi með Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, í Hvíta húsinu í dag.

„Ég myndi hitta hvern sem er. Ég trúi á fundi,“ sagði forsetinn jafnframt, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Ríkisstjórn Trump undirbýr nú að legga viðskiptaþvinganir aftur á Íran eftir að hann ákvað að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi heimsveldanna við Írani.

Það var í síðustu viku sem Trump tísti í hástöfum og hótaði Rouhani að Íran myndi „þola afleiðingar sem fáir í sögunni hafa nokkru sinni upplifað áður“ ef íranski forsetinn hefði í hótunum við Bandaríkjamenn.

Rouhani hafði þá varað Trump við að efna til ófriðar við Íran.


Tengdar fréttir

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×