Erlent

Afhentu Bandaríkjamönnum líkamsleifar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flogið var með líkamsleifarnar á bandarískan herflugvöll í Suður-Kóreu.
Flogið var með líkamsleifarnar á bandarískan herflugvöll í Suður-Kóreu. Vísir/Getty

Stjórnvöld í Pjongjang afhentu í nótt líkamsleifar sem taldar eru vera bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu á sjötta áratug síðustu aldar.

Líkamsleifunum var flogið til Suður-Kóreu þar sem fulltrúar Bandaríkjahers veittu þeim viðtöku.

Fjöldi hermanna stóð heiðursvörð þegar leifarnar voru fluttar úr vélinni og inn í sendiferðabíla. Vonast er til að aðstandendur hinna látnu, sem beðið hafa í áratugi, fái nú loksins lík þeirra í hendurnar þannig að veita megi hinum föllnu tilhlýðilegar útfarir.
 

Bandarískir hermenn heilsuðu sendiferðabílunum, sem fluttu líkamsleifarnar, að hermannasið. Vísir/AFP

Afhendingin í nótt var táknræn fyrir þíðuna sem komin er í samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Kveðið var á um afhendinguna í samkomulaginu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, undirrituðu í Singapúr í júní.

Afhendingin gefur því góð fyrirheit um að samkomulaginu verði fylgt eftir, en það hefur verið gagnrýnt fyrir loðið orðalag og enga nákvæma útlistun. Í samkomulaginu var meðal annars kveðið á um „fullkomna kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans,“ án þess að nefna hvenær það skuli gert eða hvernig. Athöfnin í nótt sýndi þó fram á að Norður-Kóreumenn eru reiðubúnir að fylgja Singapúr-samkomulaginu eftir - alla vega einhverjum hluta þess.

Talið er að líkamsleifar 55 hermanna hafi verið afhentar í nótt. Þær eiga eftir að undirgangast lífsýnarannsóknir og því ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hvort raunverulega sé um lík bandarískra hermanna að ræða. Ætla má að rannsóknirnar taki nokkur ár.
 


Tengdar fréttir

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.