Erlent

Unglingur ákærður fyrir að myrða norsku stúlkuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í morgun.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í morgun. Skjáskot/NRK
Sautján ára drengur hefur verið handtekinn og ákærður í tengslum við rannsóknina á andláti 13 ára stúlku. Unglingar fundu líkið skammt frá heimili stúlkunnar í gær eftir að hennar hafði verið leitað í nokkrar klukkustundir.

Á blaðamannafundi norsku lögreglunnar í morgun kom fram að drengurinn var yfirheyrður í gærkvöldi. Hann neiti sök en viðurkenni að hafa verið í nágrenni við hús stúlkunnar á þeim tíma sem talið er að hún hafi látist.

Að öðru leyti vill lögreglan ekki tjá sig um handtökuna og ákæruna eða hvert hún telur banamein stúlkunnar hafa verið. Drengurinn er einnig bendlaður við innbrot í hverfinu á mánudagskvöld að sögn norska ríkisútvarpsins.

Sjá einnig: Þrettán ára stúlka talin hafa verið myrt í Noregi

Fram kom í máli lögreglukonunnar Herdis Traa á fundinum að ákæran hvíldi á umfangsmikilli rannsókn og vitnisburði drengsins sjálfs.

Drengurinn er talinn hafa verið góðkunningi lögreglunnar en að hann hafi ekki komist í kast við lögin áður vegna ofbeldis. Fram kemur í frétt NRK að drengurinn er norskur ríkisborgari sem sleit barnskónum í Varhaug. Hann hafi komið á lögreglustöðina til að gefa vitnisburð en var síðar handtekinn.

Lögreglan mun áfram rannsaka svæðið þar sem lík stúlkunnar fannst, ásamt því að taka fleiri skýrslur af vitnum. Mikið verk sé enn fyrir höndum. Upptöku af blaðamannafundinum má nálgast á vef NRK.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×