Erlent

Pakistanar ganga til þingkosninga í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Öryggisgæslan fyrir kosningarnar í Pakistan er mikil.
Öryggisgæslan fyrir kosningarnar í Pakistan er mikil. Vísir/AFP
Þingkosningar fara fram í Pakistan í dag. Kosið er um öll 342 sætin á pakistanska þinginu. Íhaldsflokkurinn Múslimabandalag Pakistans (PML-N) undir forystu Shehbaz Sharif, og jafnaðarmannaflokkurinn Pakistanska réttlætishreyfingin (PTI), undir forystu Imrans Khan, mælast stærstir.

Frambjóðendur voru á lokametrunum í gær verið var að reyna að tryggja öryggi kjörstaða, en rúmlega 200 hafa farist í hryðjuverkaárásum sem gerðar hafa verið á baráttufundi frambjóðenda í kosningabaráttunni. Sharif er bróðir Nawaz Sharif, sem var forsætisráðherra fyrr á kjörtímabilinu áður en hann var dæmdur í fangelsi vegna Panamaskjalahneykslis.

Shehbaz bróðir tók þá við stólnum. Khan var áður fyrirliði landsliðs Pakistana í krikket. Leiðtogar PML-N hafa gagnrýnt kosningarnar harðlega og sagt Khan í vasa pakistanska hersins. Herinn ætli sér að koma Khan til valda.

BBC fjallaði um pakistanskt lýðræði í gær og sagði að nú fjaraði undan draumnum um raunverulegt lýðræði þar í landi. Miðillinn sagði að dómstólar hefðu vísvitandi gert  PML-N  erfitt fyrir með umdeildum ákvörðunum og að leyniþjónustan hefði staðið á bak við afskiptin. Þá væri ljóst að herinn muni gegna stóru hlutverki í framkvæmd kosninganna í dag. Gallup í Pakistan spáði því í gær að PTI fengi 29 prósenta fylgi en PML-N næði 27 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×