Enski boltinn

West Ham hvergi nærri hætt og nú er félagsmetið aftur í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felipe Anderson.
Felipe Anderson. Vísir/Getty
West Ham hefur verið áberandi á félagsskiptamarkaðnum á síðustu vikum og það virðist ekki ætla að verða neitt lát á því. Félagið gæti borgað meira fyrir leikmann en það hefur áður gert.  

West Ham hefur þegar gert samninga við þá Jack Wilshere og Ryan Fredericks í sumar og keypt þá Issa Diop og Lukasz Fabianski fyrir samtals 29 milljónir punda.

West Ham tilkynnti komu Jack Wilshere á frjálsri sölu í gær og er einnig nálægt því að kaupa Úkraínumanninn Andriy Yarmolenko frá Borussia Dortmund.

Nýjasta nafnið á innkaupalista West Ham er síðan 25 ára brasilískur miðjumaður frá Lazio að nafni Felipe Anderson. Simon Stone, blaðamaður BBC, segir frá.

West Ham er að ræða kaupverðið við ítalska félagið og gætu slegið félagsmetið með því að borga fyrir hann 40 milljónir punda.

Felipe Anderson er á óskalista nýja knattspyrnustjórans Manuel Pellegrini. Anderson kom til Lazio frá Santos árið 2013 og hefur skorað 34 mörk í 177 leikjum fyrir ítalska félagið.

Anderson var í Ólympíuliði Brasilíu sem vann gullverðlaun á leikunum í Ríó haustið 2016.

Félagsmet West Ham er 22 milljónir punda en það borgaði það Toulouse fyrir Issa Diop í síðasta mánuði. Þeir gætu reyndar endað á því að borga Stoke 25 milljónir punda fyrir Marko Arnautovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×