Erlent

Fótboltastrákarnir fá ekki að sjá úrslitaleikinn í dag

Andri Eysteinsson skrifar
Fótboltastrákarnir munu þurfa að sætta sig við upptöku af stærsta leik ársins.
Fótboltastrákarnir munu þurfa að sætta sig við upptöku af stærsta leik ársins. Vísir/EPA
Fótboltastrákarnir 12 úr taílenska knattspyrnuliðinu Wild Boars og þjálfari þeirra sem bjargað var úr hellaprísund þeirra eftir 18 daga veru, fá ekki að horfa á úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í beinni útsendingu.

Úrslitaleikurinn milli Frakklands og Króatíu fer fram á Luzhniki leikvanginum í Moskvu klukkan 15:00 að íslenskum tíma og vegna tímamismunar hefst leikurinn klukkan 22:00 í Taílandi.

Reuters greinir frá því að starfsfólk Chiang Rai Prachanukroh spítalans þar sem drengirnir dvelja nú hafi ákveðið að taka upp úrslitaleikinn og vilja að drengirnir hvílist í stað þess að horfa. 

Áður hafði stjórn FIFA boðið drengjunum að mæta á leikinn en þeir munu ekki hafa haft heilsu til að ferðast til Rússlands. Þó bíður þeirra boð á heimaleik Manchester United á Old Trafford þegar þeir hafa heilsu til.

Leikurinn hefst klukkan 15:00 og verður hægt að fylgjast með framvindu hans í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Öllum drengjunum bjargað úr hellinum

Öllum tólf drengjunum og fótboltaþjálfara þeirra, sem hírst hafa í helli í norðurhluta Taílands í 17 daga, hefur verið bjargað.

FIFA býður tælensku drengjunum á úrslitaleik HM

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur boðið tælensku drengjunum, sem sitja fastir í helli í norðurhluta Tælands, að vera viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu - losni þeir úr prísund sinni í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×