Erlent

Öllum drengjunum bjargað úr hellinum

Stefán Ó. Jónsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Hér má sjá hluta hópsins sem setið hefur fastur í hellinum undanfarna 17 sólarhringa.
Hér má sjá hluta hópsins sem setið hefur fastur í hellinum undanfarna 17 sólarhringa. Facebook
Öllum tólf drengjunum og fótboltaþjálfara þeirra, sem hírst hafa í helli í norðurhluta Taílands í 17 daga, hefur verið bjargað. Björgunin er afrakstur aðgerða sem staðið hafa yfir í þrjá sólarhringa.

Þetta kemur fram í beinni textalýsingu Guardian af björgunaraðgerðunum en vísað er í færslu af Facebook-síðu taílenska sjóhersins þar sem greint er frá því að öllum hafi verið bjargað.

Enn eru fjórir inni í hellinum, læknirinn og þrír kafarar úr taílenska sjóhernum sem hafa verið drengjunum og þjálfara þeirra til halds og trausts síðustu daga.





Alþjóðasamfélagið hefur fylgst grannt með því hvernig drengirnir hafa hver af öðrum komið upp úr hellinum í fylgd sérþjálfaðra kafara.

Á meðal þeirra sem hafa fylgst með gangi mála er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en samkvæmt textalýsingu Guardian var hún fyrsti ráðamaðurinn í heiminum til þess að fagna fréttunum.

Fjórum drengjum var bjargað á sunnudag, öðrum fjórum í gær og síðasta hluta hópsins var fylgt út úr hellinum í dag. Hópurinn hafði komið sér fyrir á klettasyllu í um 4 kílómetra fjarlægð frá hellismunnanum þangað sem þeir leituðu þann 23. júní síðastliðinn.



Lokahnykkurinn í björgunaraðgerðunum hófst klukkan 10:08 að staðartíma, eða klukkan 3:08 í nótt að íslenskum tíma. Það tók því um níu klukkustundir að koma síðustu drengjunum og þjálfara þeirra út en nítján kafarar fóru inn í hellinn í nótt til björgunaraðgerða.

Drengirnir jafnt sem þjálfarinn eru við ágæta heilsu og eru þeir ýmist komnir undir læknishendur eða verið að flytja þá á sjúkrahús. Þeir hafa þó þurft að vera í einangrun af ótta við að þeir kunni að hafa nælt sér í smitsjúkdóma.

Þeir munu dvelja hið minnsta í viku í viðbót á sjúkrahúsinu. Það þýðir að þeir geta ekki verið viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer um næstu helgi - eins og Guðni Th. Jóhannesson og forseti FIFA höfðu vonað.

Hér að neðan má sjá myndband sem eiginkona eins þjálfara fóboltaliðsins, þó ekki þess sem er fastur í hellinum, birti á Facebook-síðu sinni í gær. Þar má sjá áður óséðar myndir af drengjunum sem fastir voru, sem og þjálfaranum sem fylgdi þeim ofan í hellinn.



Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Nítján kafarar komnir inn í hellinn

Vonast er til að fótboltaþjálfaranum og síðustu drengjunum fjórum sem eftir eru í hellinum í norðurhluta Tælands verði bjargað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×