Erlent

Sennilegast illa mætt til vinnu í París í dag

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Það er allt „geðbilað“ í París segir Friðrika um stemninguna.
Það er allt „geðbilað“ í París segir Friðrika um stemninguna. Vísir/Getty

„Það er allt vitlaust hér um allar götur,“ segir Friðrika Benónýs­dóttir sem stödd var í París í gær og upplifði fagnaðarlæti Parísarbúa eftir sigur Frakka á Króötum í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

„Ég er uppi í fjórtánda hverfi en ekki niðri í miðbæ þar sem allt er vitlaust. En hér er allt gjörsamlega geðbilað og búið að vera svo sem, síðan þremur klukkutímum fyrir leikinn.“

Fréttablaðið náði tali af Friðriku klukkan 23 að staðartíma og segist hún aðspurð ekki eiga von á því að fagnaðarlátum linni á kristilegum tíma. „Ó, nei. Það verður illa mætt í vinnu hér í fyrramálið er ég hrædd um,“ segir hún hlæjandi.

Friðrika segir gleðina hafa farið prúðmannlega fram, enn sem komið væri. 

Friðrika Benónýsdóttir, rithöfundur. Fréttablaðið/Anton Brink

„En eftir að þeir unnu undanúrslitaleikinn um daginn þurfti lögreglan að spreyja þá með táragasi. Þeir klifra upp á bíla, hoppa á bílþökum og kasta kínverjum undir bíla bara af einskærri gleði. Þannig að það getur meira en verið að það þurfi að spreyja þá aftur.“

Sjálf vonaðist Friðrika til þess að Englendingar kæmust upp úr undanúrslitum enda eigi hún breskan tengdason. „Svo hef ég sjálf alltaf haldið með Ítölum þannig að ég ætlaði ekki einu sinni að horfa á keppnina. En svo er bara ekki annað hægt en að smitast af þessari fótboltamaníu sem hér ríkir og það er bara dásamlegt að fá að upplifa þessa gleði.“

Friðrika var í fjórtánda hverfi borgarinnar, líkt og áður segir, þegar fagnaðarlætin eftir leikinn brutust út. Hún segir einfaldlega dásamlegt að sjá fólk á öllum aldri gleðjast saman. „Allt frá þriggja mánaða upp í 95 ára fagna saman og allir brostu eyrnanna á milli.“

Mikill fjöldi fólks horfði á leikina á börum og kaffihúsum sem sýndu leiki á stórum útiskjáum víðs vegar um borgina. Að sögn Friðriku var alls staðar troðfullt út úr dyrum og mörg hundruð manns sem ekki fengu sæti stóðu í röðum við hvert einasta kaffihús.

Aðspurð um uppáhaldsleikmann Frakka segist Friðrika sjá fólk í fótboltatreyjum með nöfnum ýmissa leikmanna. Í hennar hverfi búi þó mikið af svörtu fólki og það fari ekki fram hjá neinum hve heitt þeir elska hinn nítján ára gamla Kylian Mbappe


Tengdar fréttir

Frakkar Heimsmeistarar í annað sinn

Frakkar eru Heimsmeistarar í knattspyrnu eftir 4-2 sigur á Króötum í mögnuðum úrslitaleik í Moskvu þar sem Pogba, Mbappe og Griezmann skoruðu allir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.