Innlent

Kólnar í vikunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hver hefði trúað því að það myndi rigna í vikunni?
Hver hefði trúað því að það myndi rigna í vikunni? Vísir/eyþór

Þó ótrúlegt megi virðast gerir Veðurstofan áfram ráð fyrir vætu sunnan- og vestantil á landinu. Að sama skapi er talið að það verði gott veður um landið norðaustanvert - en þó aðeins fyrripart dags því að síðan muni blotna þar líka.

Hitinn muni að sama skapi ná sér ágætlega á strik í dag, talið er að hann geti náð um 20 stigum á Héraði en annars staðar verður hann á bilinu 8 til 14 stig. Líkur séu hins vegar á að það kólni þegar kemur fram í vikuna, einkum fyrir norðan.

Vætan verður þó fremur lítil í dag og framan af degi á morgun. Spár gera hins vegar ráð fyrir því að skil gangi yfir landið frá suðri til norðurs þegar líða tekur á morgundaginn. Önnur skil muni svo ganga yfir landið á miðvikudaginn. Þeim muni fylgja töluverð væta.

Að öðru leyti er allt eins og það á að vera, búast má við einhverri rigningu út alla vikuna - en þó síst á norðausturhorninu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Breytileg átt 3-8. Skýjað með köflum og víða dálítil væta, en úrkomulítið NV-til. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast suðaustantil.

Á miðvikudag:
Austlæg og síðar norðlæg átt 5-13 m/s, hvassast við SA-ströndina fyrripartinn. Skýjað og allvíða dálítil rigning eða skúrir og hiti 8 til 15 stig, en úrkomulítið og svalara á Vestfjörðum.

Á fimmtudag:
Norðvestlæg átt. Rigning á Norður- og Austurlandi, annars skýjað með köflum. Hiti 4 til 15 stig, mildast SA-lands.

Á föstudag:
Suðlæg eða breytileg átt og víða bjart á köflum. Hiti 7 til 15 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með dálítilli vætu í flestum landshlutum, síst NA-til. Hiti 9 til 15 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.