Erlent

Mikil reiði í garð bandarískrar konu sem drap sjaldgæfan gíraffa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ein af myndunum sem Talley birti af sér á Facebook og er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Ein af myndunum sem Talley birti af sér á Facebook og er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum. twitter
Mikil reiði hefur brotist út á samfélagsmiðlum í garð Tess Thompson Talley, 37 ára gamallar konu frá Kentucky í Bandaríkjunum, vegna þess að hún fór á veiðar í Suður-Afríku í fyrra og drap þá gíraffa sem tilheyrir sjaldgæfri tegund.

Myndir sem Talley birti þá af sér á Facebook hafa farið á flug um netið en hún hefur nú eytt Facebook-færslunni.

Við færsluna hafði hún skrifað að draumur hennar hefði ræst þegar hún veiddi sjaldgæfan svartan gíraffa en myndunum var síðan deilt á Twitter-síðunni Africa Digest með þeim orðum að Talley væri hvítur, bandarískur villimaður fyrir að drepa gíraffann.

Twitter-færslu Africa Digest hefur verið deilt yfir 40 þúsund sinnum og hafa ýmsir þekktir einstaklingar látið Talley heyra það á samfélagsmiðlinum.

Þannig sagði tónlistarmaðurinn Moby að hún hefði enga sál og sjónvarpsmaðurinn John Simpson sagði hana vera heimska konu.

Grínistinn Ricky Gervais, sem er þekktur dýraverndunarsinni, var heldur ekkert að skafa af hlutunum þegar hann vakti athygli á málinu.

Þessi mikla reiði í garð Talley minnir á það þegar ameríski tannlæknirinn Walter Palmer skaut ljónið Cecil fyrir utan Hwange-þjóðgarðinn í Simbabve. Fólk úti um allan heim fordæmdi drápið og peningagjafir streymdu til þjóðgarðsins vegna þess.

Það er löglegt að veiða gíraffa í Suður-Afríku ef veiðin hefur verið skipulögð fyrirfram með þar til gerðum aðilum. Veiði Talley vekur hins vegar spurningar um hvort að verið sé að veiða gíraffa í landinu sem veiðiminjagripi en minna en 100 þúsund gíraffar eru eftir á Jörðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×