Innlent

Mun meira álag á bráða­mót­töku vegna lokunar Hjarta­gáttar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Magnús Kristjánsson er yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson er yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. fréttablaðið/anton brink
Jón Magnús Kristjánsson, yfirmaður bráðalækninga á Landspítala, segir að það verði mikil áskorun að sinna öllum þeim sjúklingum sem munu leita til bráðamóttökunnar á næstu vikum eins fljótt og vel heilbrigðisstarfsmenn vilja.

Ástæðan er aukið álaga á bráðamóttöku frá og með morgundeginum þegar Hjartagátt Landspítala lokar.

Þeim sjúklingum sem leita vanalega til Hjartagáttar verður nú beint á bráðamóttöku í Fossvogi en Hjartagáttin verður lokuð í fjórar vikur; opnar aftur föstudaginn 3. ágúst.

„Þetta hefur þau áhrif að þeir 25 sjúklingar, að meðaltali á sólarhring, sem leitað hafa á Hjartagáttina koma þá til okkar í staðinn og bætast við þá 85 sjúklinga sem koma hingað með bráð veikindi  á hverjum degi. Þannig að þetta er töluvert mikil aukning á sjúklingum með bráð veikindi. Það verður mikil áskorun að ná að sinna öllum sjúklingum eins fljótt og vel og við viljum,“ segir Jón Magnús og bætir við að undanfarið hafi verið unnið að því með hjartalæknum og öðrum innan spítalans að setja upp áætlun til að gera þetta mögulegt og tryggja öryggi sjúklinga.

Jón Magnús bendir á að undanfarin ár hafi heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu verið að auka sína þjónustu. Þær séu því allar með opna bráðatíma svo einstaklingum með minna alvarlega sjúkdóma eða slys er bent á að leita á sína heilsugæslu á þeim tíma sem hún er opin, auk þess sem hægt sé að leita á Læknavaktina.

„Við hvetjum alla þá sem telja sig geta nýtt þá þjónustu að nýta sér hana. Við komum til með að herða á því verklagi að vísa fólki í sinn rétta farveg sem leitar til okkar og það getur vel þýtt að fólki verði vísað á heilsugæslu eða læknavakt,“ segir Jón Magnús.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×