Erlent

Stjörnur sniðganga Fox vegna umfjöllunar um aðskilnað barna og foreldra

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Margir eru ævareiðir vegna umfjöllunar Fox News um börnin
Margir eru ævareiðir vegna umfjöllunar Fox News um börnin Vísir/Getty
Nokkrir þekktir leikstjórar og framleiðendur í Hollywood hóta að sniðganga útgáfu- og framleiðslufyrirtækið Fox vegna þess sem þeir kalla skammarlega umfjöllun fréttastöðvarinnar Fox News um aðskilnað hælisleitenda við börn sín.

Þáttastjórnendur stöðvarinnar hafa lýst yfir fullum stuðningi við aðgerðir Trump stjórnarinnar, að aðskilja börn frá foreldrum og setja í flóttamannabúðir, og gert lítið úr vanda barnanna.

Meðal álitsgjafa þeirra í málinu má nefna Corey Lewandowski, fyrrverandi kosningastjóra Trumps forseta. Hann vakti töluverða reiði í einu viðtali þegar hann hæddist að sorgarsögu um 10 ára stúlku með Downs heilkenni sem var aðskilin frá móður sinni og læst inni.

Annar tíður álitsgjafi, hin afar umdeilda Ann Coulter, fullyrti að þau börn sem sæjust grátandi í búrum á fréttamyndum væru bara leikarar og allt væri þetta sviðsett. Í sama þætti sagði þáttastjórnandi að aðstæður barnanna í haldi væru álíkar sumarbúðum.

Þá tók stöðin viðtal við Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Trump stjórnarinnar, þar sem hann sagði ósanngjarnt að bera aðgerðirnar saman við framferði nasista í helförinni. Munurinn væri sá að nasistar hafi bannað gyðingum að fara frá Þýskalandi en í þessu tilviki sé heili tilgangurinn einmitt að koma fólkinu úr landi.

Fox News tilheyrir Fox Samsteypunni ásamt framleiðslufyrirtækinu 21st Century Fox. Steve Levitan, höfundur hinna geysivinsælu gamanþátta Modern Family, segist einfaldlega ekki geta sætt sig við að vinna fyrir sama fyrirtæki lengur. Fordæmir hann ummæli Ann Coulter um leikaraskap sérstaklega og segir þau bera vott um hreina illsku.

Levitan segir að hann muni klára núverandi þáttaröð eins og samningar segi til um en síðan sé samstarfinu lokið, sama hvort honum takist að selja þættina til annarra stöðva eða ekki.

Seth MacFarlane, sem er meðal annars höfundur þáttanna Family Guy sem sýndir eru á Fox, tekur í sama streng. Hann segir að Fox News básúni skoðunum frá ystu öfgum umræðunnar og hann skammist sín fyrir að starfa fyrir samsteypuna.

Apatow er einn farsælasti framleiðandi og leikstjóri gamanmyndi á síðari árum
Hinn afar farsæli leikstjóri og framleiðandi Judd Apatow var í kjölfarið spurður á Twitter hvort hann gæti hugsað sér að hætta öllu samstarfi við Fox vegna málsins. Apatow hefur meðal annars gert þættina Freaks and Geeks og Girls, auk kvikmynda á borð við Anchorman, The 40 Year Old Virgin, Superbad, Bridesmaids og svo mætti lengi telja.

Apatow var fljótur að svara því til að hann hafi tekið þá ákvörðun fyrir sextán árum að vinna aldrei aftur fyrir Fox. Fyrirtækið breiði út hugmyndir sem einkennist af illsku og standi fyrir græðgi og spillingu.

Apatow gekk síðan lengra og sagði Trump stjórnina seka um að pynta börn. Hvatti hann leikara, framleiðendur, blaðamenn, íþróttamenn og stjórnendur sem starfi fyrir Fox til að láta í sér heyra.

Paul Feig, sem var meðal annars framleiðandi myndanna Bridesmaids og endurgerðarinnar af Ghostbusters, lýsti því síðan yfir í gær að hann fordæmdi fyrirtækið og gaf í skyn að hann myndi ekki gera fleiri myndir fyrir kvikmyndaver Fox.

Þess má geta að tímasetningin þessara mótmæla er frekar sérstök í ljósi þess að Fox samsteypan er að ganga frá samningi um að selja þann hluta fyrirtækisins sem framleiðir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Því er líklegt að Fox News verði brátt aðskilið fyrirtæki sem tengist ekki kvikmyndaverinu.


Tengdar fréttir

Mikil reiði vegna stefnu um börn ólöglegra innflytjenda

Mikil reiði hefur blossað upp í Bandaríkjunum vegna nýrrar stefnu um að taka megi börn frá ólöglegum innflytjendum og vista þau í flóttamannabúðum á meðan foreldrarnir fara í gegnum dómskerfið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.