Fótbolti

Byrjunarliðið á móti Króatíu: Jóhann Berg snýr aftur og Sverrir kemur inn

Tómas Þór Þórðarson í Rostov við Don skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson snýr aftur eftir meiðsli.
Jóhann Berg Guðmundsson snýr aftur eftir meiðsli. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er búinn að tilkynna byrjunarliðið Íslands sem mætir Króatíu í lokaumferð D-riðils HM 2018 í fótbolta. Hann gerir þrjár breytingar fá tapinu á móti Nígeríu.

Heimir skiptir aftur um taktík og er nú aðeins með einn framherja og því dettur Jón Daði Böðvarsson úr liðinu. Alfreð Finnbogason heldur sæti sínu í fremstu víglínu en hann skoraði eina mark Íslands á mótinu til þessa.

Emil Hallfreðsson kemur aftur inn og er á miðjunni með Aroni Einar Gunnarssyni og Gylfa Þór Sigurðssyni. Emil spilaði frábærlega á móti Argentínu en kom ekkert við sögu á móti Nígeríu.

Jóhann Berg Guðmundsson snýr aftur eftir meiðsli sem hann varð fyrir í leiknum á móti Argentínu en hann gat ekki verið með á móti Nígeríu í leiknum sem tapaðist, 2-0. Rúrik Gíslason tekur sér því sæti á bekknum.

Sverrir Ingi Ingason kemur svo inn í miðvörðinn fyrir Kára Árnason og spilar við hlið Ragnars Sigurðssonar en saman spila þeir hjá Rostov og verða væntanlega með heimamenn á sínu bandi. Sverrir byrjaði síðast mótsleik á móti Úkraínu í undankeppni HM 2018.

Byrjunarliðið (4-4-1-1): Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Sverrir Ingi Ingason, Ragnar Sigurðsson, Hörður Björgvin Magnússon - Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson, Birkir Bjarnason - Gylfi Þór Sigurðsson -  Alfreð Finnbogason.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×