Erlent

Byssumaðurinn áreitti konu svo mánuðum skipti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jarrod Warren Ramos. Hann var ákærður fyrir fimmfalt morð í dag.
Jarrod Warren Ramos. Hann var ákærður fyrir fimmfalt morð í dag. Vísir/AP
Svo virðist sem mannskæð skotárás í borginni Annapolis í Maryland í gær hafi átt sér langan aðdraganda. Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir verknaðinn áreitti starfsmenn blaðsins í mörg ár áður en hann lét til skarar skríða.

Hinn 38 ára Jarrod Warren Ramos var ákærður fyrir fimmfalt morð í dag en hann er sagður hafa ráðist inn á skrifstofu dagblaðsins The Capital Gazette og hafið þar skothríð. Greint hefur verið frá því að Ramos hafi stefnt dagblaðinu The Capital Gazette fyrir meiðyrði árið 2012. Stefnan grundvallaðist á umfjöllun blaðsins um dóm sem Ramos hlaut fyrir áreitni en fimm dögum eftir að hann var sakfelldur birtist frásögn eins þolanda hans í blaðinu.

Sjá einnig: Gáfu blaðið út í dag þrátt fyrir skotárásina

Í umfjölluninni lýsir konan því að Ramos hafi haft samband við sig á Facebook en þau hafi gengið í sama framhaldsskóla. Hann hafi þakkað henni fyrir að hafa verið eini nemandinn í skólanum sem heilsaði honum á göngunum og var vinaleg við hann.

Konan sagðist hafa svarað Ramos, þar eð henni virtist hann eiga við vandamál að stríða, og lagði til að hann leitaði sér hjálpar. Í kjölfarið hafi Ramos byrjað að senda henni tölvpósta þar sem hann ýmist bað hana um hjálp eða kallaði hana öllum illum nöfnum. Konan sagði Ramos ekki hafa hætt sendingunum, sem stóðu yfir í marga mánuði, fyrr en hún hringdi á lögreglu.

Nokkrum mánuðum síðar hóf Ramos aftur að senda henni tölvupósta, sem konan segir hafa verið enn andstyggilegri en hinir fyrri.

Þá áreitti Ramos blaðamenn The Capital Gazette reglulega á Twitter. Í einni færslunni sagðist hann myndu hafa ánægju af því að dagblaðið legði upp laupana en að það yrði „betra“ ef tveir af blaðamönnum þess „hættu að anda.“ Í annarri færslu beindi hann spjótum sínum að blaðamanninum Rob Hiaasen sem lést í árásinni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.