Erlent

Árásarmaðurinn ákærður fyrir fimm morð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jarred Warren Ramos.
Jarred Warren Ramos. Vísir/AFP
Jarrod Warren Ramos, sem grunaður er um að hafa skotið fimm til bana á skrifstofu dagblaðsins The Capital Gazette í Maryland í gær, hefur verið ákærður fyrir fimmfalt morð. Þetta hefur bandaríska fréttastofan CNN upp úr dómskjölum.

Sjá einnig: Gáfu blaðið út í dag þrátt fyrir skotárásina

Þetta kemur einnig fram í tísti blaðamanns The Capital Gazette. Þar segir að Ramos, sem er 38 ára, verði leiddur fyrir dómara í Annapolis á laugardag sem mun úrskurða um tryggingu yfir hinum grunaða. Ramos höfðaði meiðyrðamál gegn blaðinu árið 2012 en málið var látið niður falla.



Ramos er talinn hafa hafið skothríð á skrifstofu The Capital Gazette í gær og notaðist við skammbyssu og reyksprengur til að fremja voðaverkið. Lögregla kom að honum þar sem hann faldi sig undir skrifborði. 

Hin fimm látnu störfuðu öll við blaðið, ýmist sem blaðamenn, ritstjórar eða sinntu öðrum störfum á ritstjórninni.

Þá gaf The Capital Gazette út blað í morgun, þrátt fyrir skotárásina í gær, en blaðamenn hétu útgáfunni skömmu eftir skotárásina. Á forsíðunni var að finna myndir af hinum látnu auk ítarlegrar umfjöllunar um árásina undir fyrirsögninni „5 skotnir til bana hjá The Capital“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×