Erlent

Bandaríkjaforseti gefur tóninn í tollastríði við Kína

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Donald Trump tollar Kína í botn.
Donald Trump tollar Kína í botn. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að láta sverfa til stáls gegn Kína með því að leggja 25 prósenta toll á tilteknar vörur. Ákvörðunin gæti verið upphafið að hörðu viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína sem forstjóri AGS hefur áhyggjur af.

Hinir íþyngjandi tollar munu frá 6. júlí leggjast á um 800 vörur. Viðskipti með þær á ári nema nú 34 milljörðum dala, eða sem nemur ríflega 3.600 milljörðum króna. Kínversku vörurnar, sem Trump vill koma böndum á innflutning á, eru allt frá dekkjum flugvéla og túrbínum til uppþvottavéla. Stjórnvöld útiloka ekki frekari tollaálögur á fleiri vörur að andvirði 16 milljarða dala til viðbótar.

„Þessir tollar eru nauðsynlegir til að koma í veg fyrir frekari ósanngjarnan flutning á bandarískri tækni og hugverki til Kína og munu verja bandarísk störf. Bandaríkjamenn geta ekki lengur búið við að tapa tækni og hugverkum okkar vegna ósanngjarnra viðskiptahátta,“ lét Trump hafa eftir sér.

Trump hefur þar að auki varað kínversk stjórnvöld við að ef þau svari í sömu mynt muni Bandaríkin leggja á enn frekari tolla. Kínverjar hafa sömuleiðis verið vígreifir í tali og Geng Shuang, utanríkisráðherra Kína, ítrekað að viðskiptaþvinganir muni þýða að samningaviðræðum Kína og Bandaríkjanna verði sjálfhætt.

„Taki Bandaríkin upp einhliða verndartollastefnu gegn kínverskum hagsmunum munum við bregðast umsvifalaust við með nauðsynlegum aðgerðum til að verja þá,“ sagði Geng Shuang.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×